Ný valnefnd hefur verið skipuð hjá Bankasýslu ríkisins, en hún á samkvæmt lögum að tilnefna einstaklinga fyrir hönd ríkisins til setu í bankaráðum eða stjórnum fyrirtækja á forræði stofnunarinnar.

Valnefndina skipa Auður Bjarnadóttir ráðgjafi hjá Capacent, Þórdís Ingadóttir dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Sigurður Þórðarson f.v. ríkisendurskoðandi, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.

Bankasýslan tilkynnir einnig að eftir yfirlýsingu fimm bankaráðsmanna Landsbankans liggur fyrir að stjórn Bankasýslu ríkisins mun kjósa a.m.k. fimm nýja bankaráðsmenn í Landsbankanum, þ. á m. formann bankaráðs. Stjórn Bankasýslu ríkisins mun því óska formlega eftir tilnefningum valnefndar um nýja bankaráðsmenn og á næstu dögum auglýsa eftir einstaklingum til stjórnarsetu í fjármálafyrirtækjum. Stefnt er að kosningu bankaráðsmanna á fyrirhuguðum aðalfundi Landsbankans sem haldinn verður þann 14. apríl nk.

Bankasýslan segir einnig að hún hafi staðið faglega að verki í samskiptum sínum við Landsbankann vegna Borgunarmálsins. Stofnunin stendur við allar athugasemdir sínar og yfirlýsingar fyrirsvarsmanna hennar í fjölmiðlum vegna málsins og bíður enn efnislegra svara við bréfi sínu dagsettu 11. mars sl. vegna sölumeðferðar Landsbankans á eignarhlut í Borgun.