Gert er ráð fyrir í nýju aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar að ný vatnslögn verði lögð frá Vestfjarðajarðgöngum að Suðurtanga um Pollinn, til að fyrirtæki, sem þurfa hágæða vatn í framleiðslu sína, geti fengið nægt ómengað vatn.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins Bestu á Ísafirði.

Þar kemur fram að lengd lagnar er að hámarki 5,5 km og er framkvæmdin því ekki tilkynningarskyld vegna mats á umhverfisáhrifum.

Einnig skulu skoðaðir möguleikar á að leiða vatnið úr göngunum einnig til Önundarfjarðar og Súgandafjarðar til að auka möguleika þar á atvinnuuppbyggingu tengda háum gæðum vatns.

„Mikilvægt er að allar vatnslagnir falli vel að landslagi og verðmætum náttúrusvæðum verði hlíft eins og kostur er. Þá er mikilvægt að í öllum tilvikum verði gengið þannig frá að sem minnst ummerki verði á yfirborði landsins“, segir í greinargerð með aðalskipulaginu.

Sjá nánar á vef Bæjarins Bestu.