Ný vefsíða hefur verið opnuð um íslenska fjármálamarkaðinn á vefslóðinni www.keldan.is . Í tilkynningu kemur fram að Keldan er upplýsinga- og viðskiptavefur. Hlutverk hennar sé að veita yfirsýn á fjármálamarkaði, bjóða upp á skilvirka fjármálaþjónustu og vera til gagns og gamans. Það eru HF verðbréf sem standa að vefnum.

Ýmsar nýjungar eru á vefnum, t.d. samanburður á innlánskjörum íslenskra bankastofnana og upplýsingar um gengi krónunnar erlendis ásamt fleiru. Keldan hýsir fréttaglugga þar sem fréttir frá innlendum jafnt sem erlendum fréttamiðlum eru birtar á einum stað segir í tilkynningu.

,,Allt kapp hefur lagt á að gera vefinn skilvirkan og notendavænan fyrir fólk sem fylgist með fjármálamarkaði. Nýstárleg hönnun býður notendum uppá að breyta vefnum eftir sínu höfði og velja sér þær upplýsingar sem þeir vilja fylgjast með hverju sinni," segir í tilkynningu.

Farsímaútgáfa af vefnum opnaði á sama tíma á slóðinni m.keldan.is og gerir hún notendum kleift að fylgjast með fréttum frá mörgum miðlum samtímis ásamt nýjustu gengisupplýsingum, hvort sem er gengi gjaldmiðla, hlutabréfa eða skuldabréfa.

- Og fyrir áhugamenn um íslenskt mál má nefna að Kelda þýðir m.a. uppspretta eða veita. Til forna fólu menn fé sitt og fjársjóði í keldum sbr. frásagnir af Geirmundi heljarskinni í Landnámu og Skallagrími Kveld-Úlfssyni í Egils sögu.