Hópur Íslendinga hefur sett í loftið nýja vefsíðu, www.snjohengjan.is , sem inniheldur upplýsingar um snjóhengjuna svokölluðu og þar sem fólki gefst kostur á að tjá skoðun sína á því hvort setja eigi lausn snjóhengjunnar í forgang að loknum kosningum.

Aflandskrónueignir erlendra aðila eru gjarnan kallaðar snjóhengjan, en þessar eignir eru fastar í íslenska hagkerfinu vegna gjaldeyrishafta.

Í tilkynningu frá Róberti Wessman, forstjóra Alvogen einum aðstandenda síðunnar, segir að talið sé að snjóhengjan nemu um 800-1.000 milljörðum króna. Frjáls gjaldeyrisviðskipti með núverandi snjóhengju til staðar gætu leitt til verulegs gengisfalls krónunnar og óðaverðbólgu. Að afnema gjaldeyrishöft undir núverandi kringumstæðum myndi því alltaf kalla á inngrip Seðlabankans til að sporna við slíkri gengisveikingu. Gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans sé að mestu leyti tekinn að láni og muni slíkt inngrip að öðru óbreyttu leiða til aukinna skulda ríkissjóðs.

Segir þar jafnframt að upptaka á erlendum gjaldeyri í stað íslenskrar krónu muni ekki leysa þennan vanda og því sé mikilvægt að hagstæðir samningar náist við eigendur aflandskrónanna.

Þar er haft eftir Róberti að aðstandendur síðunnar hvetji alla Íslendinga til að taka þátt í áskorun til stjórnmálamanna um að setja lausn snjóhengjunnar í forgang. Til að hefja nýja nýja sókn til bættra lífskjara sé lykilforsenda þess að leysa snjóhengjuna. Íslendingar séu í góðri samningsstöðu til að semja við eigendur aflandskrónanna og skorar hann á stjórnmálamenn að sýna framsýni og þor við lausn málsins.

Auk Róberts eru í hópi aðstandenda vefsíðunnar þau Jón Sigurðsson forstjóri Össurar, Helen Neely rekstrar- og fjármálastjóri, Björn Zoega forstjóri Landspítalans, Guðni Bergsson lögfræðingur, Steinn Jóhannsson skólameistari og María Bragadóttir heilsuhagfræðingur.