Stangveiðifélagið Lax-á hefur tryggt sér ný veiðisvæði í Argentínu, en Lax-á hefur undanfarin ár leigt hluta árinnar Rio Grande og selt veiðimönnum út um allan heim veiðileyfi í hana. Það er risavaxinn sjóbirtingur sem bíður veiðimanna í Rio Grande, en til þessa hefur Lax-á boðið veiðimönnum upp á veiði á Toon Ken svæðinu. Nú bætist við La Aurelia svæðið þar sem veitt er á fjórar stangir. Tvær veiða á bakkanum á móti Toon Ken en tvær stangir veiða í ánni Menendez á 12 kílómetra svæði.

Ásta Ólafsdóttir hjá Stangveiðifélaginu Lax-á segir að um hagkvæmari kost sé að ræða en áður hafi verið boðið upp á. Veiðihúsið við La Aurelia sé gamalt en snyrtilegt veiðihús með fjórum tveggja manna baðherbergjum og tveimur baðherbergjum. "Það er full þjónusta í húsinu og að sjálfsögðu er boðið upp á argentínskar steikur og ljúf rauðvín með," segir Ásta sem mælir eindregið með þessum nýja kosti. "Menendez tilheyrir sama vatnasvæði og Rio Grande en stutt er frá veiðihúsinu að ánni og fjöllin þarna í kring veita gott skjól fyrir vindi. Ég hvet alla áhugasama að kynna sér málið en sérstakt Argentínukvöld verður haldið í Útivist og veiði á fimmtudagskvöld og hefst stundvíslega klukkan 20. Við bjóðum upp á fimm vikur á þessu svæði á topptíma frá janúar og fram í mars og þess má geta að einn stærsti sjóbirtingur síðasta sumars kom frá þessu veiðisvæði."