Ný verkalýðslög tóku gildi í Kína í dag sem auka réttindi verkamanna, hækkar laun og gera ráðningasamninga sveigjanlegri. Talsmaður Fair Labor Association, sem fylgist með verkalýðsmálum í yfir 60 löndum segir með þessu verði Kína leiðandi í verkalýðsmálum og sýni öðrum fordæmi. Bloomberg fréttaveitan greinir frá þessu.

Á því eru þó skiptar skoðanir. Þessum lögum fylgir hærri kostnaður fyrir sem kann að gera framleiðendum erfitt fyrir. Olympus myndavélaframleiðandinn og Yue Yuen Industrial skóframleiðandinn sem meðal annars framleiðir Nike skó hafa þegar gefið í skyn að þau muni færa starfsemi sína til Víetnam til að spara kostnað.

Viðmælandi Bloomberg telur að fleiri fyrirtæki og verksmiðjur muni flytja starfsemi sína frá Kína. Þá geri hin nýju lög fyrirtækjum erfiðara að ráða sér starfsfólk tímabundið en slíkt hefur tíðkast í Kína til þessa sem hefur komið sér vel fyrir framleiðendur þar sem pantanir eru ekki með sama móti allt árið, til dæmis af fatnaði og rafmagnsvörum. Þá hafa fyrirtæki ráðið starfsmenn en sagt upp hluta þeirra með stuttum fyrirvara og án uppsagnarfrests þegar útlit er fyrir minni framleiðslu. Annar viðmælandi segir það óumflýjanlegt að nýju lögin muni auka kostnað fyrirtækja og hefta starfsemi þeirra.

Samkvæmt opinberum talsmönnum eiga hin nýju lög að auka starfsöryggi starfsmanna, koma í veg fyrir tímabundnar ráðningar, auka rétt starfsmanna við uppsögn og auk þess mun atvinnurekandi í framtíðinni þurfa að greiða starfsmanni einn mánuð fyrir hvert unnið ár segi hann starfsmanninum upp.