Orkuútrásarfyrirtækið Enex, sem er 73% í eigu Geysis Green Energy og 27% í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, hefur ekki náð að vinna að frekari þróun verkefna og „strategískra“ langtímasamninga vegna þeirrar stöðu sem fyrirtækið er í af völdum „forræðisdeilu“ eigenda sinna. Þetta segir Lárus Elíasson, forstjóri Enex.

„Þrátt fyrir allar hremmingar á fjármálamarkaði hafa okkar hremmingar flestar verið heimatilbúnar. Við höfum staðið í þeirri trú að þessi forræðisdeila leystist á næstu vikum en á meðan er erfitt að hreyfa sig á markaðnum úti. Það hefur staðið til um nokkurra mánaða skeið að sameina fyrirtækið Geysi Green Energy en það hefur enn ekki gengið eftir. Þetta skemmir ekki þau verðmæti sem við höfum skapað en við sköpum heldur ekki ný á meðan staðan er þessi. Við gætum verið að missa af tækifærum. Það er samt enginn hörgull á þeim. Markaðurinn er skemmtilegur að mörgu leyti og hefur verið að þroskast mikið, jafnt austan og vestan Atlantshafs. Hann hefur farið í gegnum mikið samrunaferli og þá skiptir máli að standa uppi sem partur af sterku aðilunum,“ segir Lárus.

Hann segir að gangurinn í þessu hafi verið sá að í þeim löndum þar sem jarðvarmi hefur ekki verið nýttur, komi fyrst inn á markaðinn smáir og áhættuþolnir aðilar. Þegar markaðurinn þroskist komi stærri aðilar inn á markaðinn og kaupi þá smærri upp. Þetta sé greinilega að gerast í Þýskalandi.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um orku og auðlindanýtingu sem fylgir með Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .