Fyrsta nóvember næstkomandi verður opnuð ný verslun 66°Norður í SoHo, í hjarta New York-borgar innan um verslanir heimsþekktra vörumerkja á borð við Prada. Hin nýja verslun 66°Norður á Mercer Street er engin venjuleg verslun heldur nokkurs konar Íslands-gallerí eða tveggja mánaða ?gjörningaverksmiðja?, þar sem land og þjóð verður kynnt með margvíslegum hætti; með tónlistarviðburðum, ljósmyndasýningum, kvikmyndasýningum og glæsilegri íslenskri hönnun, allt í þeim tilgangi að kynna New York-búum afurðir 66°Norður en hugmyndirnar eru sóttar langt aftur í sögu og menningu íslensku þjóðarinnar.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að gríðarleg vinna hefur verið lögð í að koma versluninni á koppinn og undirbúa markvissa kynningarherferð. Ekkert hefur verið til sparað svo að umgjörðin öll og innihaldið verði sem glæsilegast þá tvo mánuði sem verslunin verður starfrækt.

"Nick Arauz, hönnuði verslunarinnar, þykir hafa tekist fádæma vel að endurskapa náttúru landsins og þá menningu sem 66°Norður er sprottin úr.
Myndum af íslenskri náttúru verður varpað á stór sýningartjöld um alla verslunina og á veggjum verða sýnd myndbönd af hvers konar útivist sem stunduð er hér á landi allan ársins hring. Þá eru miklar líkur á að hljómsveitin Sigur Rós og söngvararnir, Mugison og Emilíana Torrini, muni troða upp á þessu tveggja mánaða tímabili sem verslunin verður opin. Sem sagt, fullt af skemmtilegum rammíslenskum uppákomum á 158 Mercer-stræti í New York," segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Þar segir einnig að á tæplega tveimur árum hefur Sharon Prince, forstjóri Arctic Edge, LLC, umboðsaðili 66°Norður í Norður-Ameríku, lyft grettistaki í kynningarmálum 66°Norður vestanhafs. Þegar Sharon kynntist fyrst 66°Norður féll hún fyrir fötunum en einnig landinu og þjóðinni sem fóstrað hefur fyrirtækið - og sköpunarkrafturinn er sóttur til.

"Það er þessi magnaði sköpunarkraftur sem býr í fólkinu en ekki síður jarðvegurinn, þar sem rætur fyrirtækisins liggja, sem mig langar að endurskapa í nýju versluninni og kynna íbúum New York. Þetta er einstakt tækifæri til að kynna ósvikið vörumerki með djúpar rætur í menningu og sögu heillandi þjóðar, sem hefur svo ótalmargt að segja. Stærsta áskorunin felst í að koma rótgróinni íslenskri menningararfleifð og afurðum 66°Norður á framfæri hér í versluninni í New York.

Við viljum kynna vörumerki sem allt í senn höfðar til fjölmargra þjóðfélagshópa, undirstrikar þægilegan lífsstíl og er á sama tíma glæsileg tískuvara og ég á von á því að íbúar New York muni skynja þessi einföldu en skýru skilaboð 66°Norður þegar þeir ganga inn í verslunina. Og þetta verður miklu meira en bara verslun, þetta verður menningarleg upplifun,? segir Sharon Prince og bætir við ... ?Maður getur verið svalur þótt manni sé ekki skítkalt!?.

Ríka og fræga fólkið í fatnaði frá 66°Norður

Sharon Price hefur farið óvenjulegar en árangursríkar leiðir í markaðssetningu 66°Norður vestanhafs. Sem dæmi um það hefur hún fengið fjölmarga fræga einstaklinga í lið með sér sem sjást nú reglulega í fatnaði frá 66°Norður og eru því nokkurs konar kyndilberar vörumerkisins vestanhafs. Þeirra á meðal má nefna Scarlett Johansson, Julia Stiles, Ewan McGregor, Uma Thurman, Michael Bey, Liev Schreiber, Forrest Whittacker og Richard Wiese, forseta Explorers Club, sem verið hefur óþreytandi í að segja reynslu sína af fatnaði 66°Norður í fjölmörgum leiðöngrum sínum.