Tékkneski bílaframleiðandinn Skoda hefur staðið sig vel í hinni miklu samkeppni sem ríkir í flokki millistórra og minni fjölskyldubíla. Skoda kemur nú fram nýjan bíl sem ber nafnið Rapid og er mitt á milli Fabia og Octavia hvað varðar stærð.

Rapid er í raun ekki nýtt nafn hjá Skoda, því einn bíla Skoda á árunum á milli 1930-1940 hét einmitt Rapid, og þeir sem eldri eru muna einnig eftir sportlegum Skoda Rapid með vélina að aftan, sem var á markaði hér á landi upp úr 1980. Rapid skipar einnig sérstakan sess hjá Skoda því hann er fyrsti bíllinn sem kynntur er til sögunnar í nýrri hönnunarlínu Skoda. Þrjár bensínvélar og ein dísilvél verða í boði á nýjum Rapid. Grunngerðin er 1,2 lítra TSI, 4ra strokka 86 hestöfl. Sú vél er einnig í boði með forþjöppu og þá 105 hestöfl. Aflmesta vélin fyrir Rapid er sérlega áreiðanleg fjögurra strokka 1,4 lítra TSI vél með forþjöppu, 122 hestöfl. Eina dísilvélin í boði er 1,6 lítra TDI með samrásarinnsprautun og skilar 105 hestöflum.

Þessi nýjasta viðbót í Skoda-línuna er ótrúlega rúmgóður þrátt fyrir að hann sé í raun ekki svo stór, því heildarlengdin er 4,48 metrar, breiddin er 1,7 metrar og hæðin er 1,46 m.. Haganleg hönnun gefur gott rými fyrir fimm manns og þann farangur sem fylgir. Pláss fyrir hné og höfuðrými er með því besta sem gerist í þessum stærðarflokki og farangursrýmið, sem rúmar 550 lítra, er nægilega stórt til að uppfylla þarfir flestra fjölskyldna. Ef hann er borinn saman við Volkswagen Golf sem dæmi, þá er Rapid 30 sentímetrum lengri en Golfinn. Svolítið skemmtileg nýjung hjá Skoda er að mottan í farangursrýminu er „tvíhliða“ því önnur hliðin er með gúmmíklæðningu sem er hagkvæmt þegar flytja þarf óhreina hluti. Geymslustaðir, bollahöldur og netvasar á hliðum framsæta, allt eru þetta atriði sem undirstrika notagildi Skoda Rapid fyrir fjölskylduna. Skoda Rapid verður frumsýndur hjá Heklu á morgun laugardag kl. 12-16.