Húsnæði fyrirtækisins FlyOver Iceland er í byggingu á Fiskislóð á Grandanum og stefnt er að opnun um miðbik næsta sumars. Fyrirtækið hyggst bjóða upp á þjónustu sem lýst er sem einstakri háloftaheimsókn þar sem boðið er upp á sýndarflugferð yfir náttúru Íslands. Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri FlyOver Iceland, segir að rekja megi upphaf fyrirtækisins til draums ungrar stúlku frá Íslandi.

„Stúlkan fór á FlyOver sýningu í Bandaríkjunum með móður sinni fyrir um sjö árum síðan og varð algjörlega heilluð. Þær mæðgur gengu í kjölfarið með þá hugmynd í maganum í nokkurn tíma að koma sambærilegri sýningu á fót hér á landi. Móðirin kynnti þessa hugmynd fyrir ýmsum aðilum við misjafnar undirtektir en tókst svo að lokum að fá íslenska fjárfesta með sér í þetta verkefni. Boltinn fór í kjölfar þess að rúlla og síðar komu erlendir fjárfestar einnig inn í verkefnið.“

FlyOver Iceland er byggt að fyrirmynd FlyOver Canada sýningarinnar í Vancouver en FlyOver Iceland er í eigu Esja Attractions ehf. annars vegar og hins vegar Viad, sem er opinbert bandarískt fyrirtæki.

Gestir upplifi sig eins og fuglinn fljúgandi

Á sýningunum er notast við  nýjustu tækni í kvikmyndagerð til að gefa sem sannasta mynd af landslagi landsins. Sérsmíðuð sæti lyftast og hreyfast með myndinni sem gefur áhorfandanum þá tilfinningu að hann svífi yfir landið. Auk flugsins eru tvær minni sýningar í húsinu sem gera menningu og sögu Íslands hátt undir höfði. Einnig verður að finna búð og kaffihús í húsnæðinu.

„Fyrir framan gestina verður tjald sem er 17 metra breitt og 20 metra hátt sem varpar upp mynd í bestu mögulegri upplausn. Sætin sem gestirnir sitja í hreyfast svo þannig að fólki líður nánast eins og það sé fuglinn fljúgandi. Ég hef ferðast út um allt Ísland, meðal annars gangandi og á hestbaki, en það er algjörlega ný vídd í upplifun af náttúru landsins sem FlyOver Iceland býður upp á. Nálægðin í myndatökunni er mjög mikil en myndin er tekin af áhættuþyrluflugmanni sem er sérstaklega þjálfaður til þess að fljúga í svona mikilli nálægð við land. Þegar flogið er framhjá fossi þá fá gestirnir smá úða yfir sig og þegar flogið er í gegnum ský blæs vindur og svo kemur upp ákveðin lykt við mismunandi aðstæður. Það er því verið að örva öll skilningsvit fólks meðan á sýningunni stendur,“ segir Agnes.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um verðbólguhorfur ársins.
  • Viðtal við Dag B. Eggertsson um húsnæðismálin.
  • Umfjöllun um skattlagningu á atvinnuhúsnæði.
  • Úttekt á tillögum Viðskiptaráðs í nýsköpunarmálum.
  • Viðtal við Helga Vilhjálmsson, forstjóra Góu.
  • Úttekt á stöðu ferðaþjónustunnar.
  • Sérblað um bíla fylgir blaðinu.
  • Óðinn skrifar um ástandið í Venesúela.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um pálmatré í Vogunum.