*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Innlent 11. maí 2019 16:01

Ný víglína í deilum Símans og GR

Deilur milli fjarskiptafyrirtækja kristallast í umsögnum nýrrar ESB tilskipunar um því hvað teljist til grunnkerfa.

Höskuldur Marselíusarson
Ljósleiðaravæðing landsins hefur verið hröð á síðasta áratug eða svo, og eru miklir hagsmunir í húfi í alls kyns opinberum skilgreiningum líkt og hvað teljist sem grunnkerfi og hverjir teljast ráðandi á markaði.
epa

Mikil framþróun hefur verið á fjarskiptamarkaði með háhraða- og ljósleiðaratengingum inn á stærstan hluta heimila landsins síðustu ár, sem þýtt hefur stöðugar deilur fjarskiptafyrirtækjanna. Þær kristallast í umsögnum þeirra um frumvarp til laga til innleiðingar nýrrar ESB tilskipunar, en þar taka stofnanir afstöðu gegn tillögum Símans um hráan aðgang að ljósleiðurum.

Eins og fjallað hefur verið um í Viðskiptablaðinu undanfarnar vikur hafa ýmsir tæknilegir þættir orðið skotspæni deilna milli Símans og Gagnaveitunnar og fleiri félaga, sem fylgt hafa kærur í allar áttir, enda miklir hagsmunir í húfi.

Snúast deilurnar að miklu leyti um það hvort og þá hvernig helstu fyrirtækin á markaðnum eigi að fá aðgang að ljósleiðarabúnaði og nettengingum hjá hvort öðru, og eru nú þegar fjöldi mála fyrir úrskurðarnefndum og dómstólum vegna þessa.

Eitt dæmi þess er úrskurður Pósts- og fjarskiptastofnunar frá því í fyrra um að Síminn hafi brotið gegn ákvæðum fjölmiðlalaga sem banna fjölmiðlaveitu að beina viðskiptum viðskiptavina við fjarskiptafyrirtæki því tengdu, þegar ólínuleg myndmiðlun Símans var einungis í boði í ljósleiðurum dótturfélagsins Mílu.

Í kjölfarið brást Síminn við með Sjónvarpi Símans óháð neti, þar sem hægt er að tengjast efnisveitu fyrirtækisins yfir netkerfi annarra fjarskiptafélaga, en nú er Póst- og fjarskiptastofnum með til umfjöllunar kvörtun keppinauta félagsins. Þar er því haldið fram að boxið sé ekki fullnægjandi lausn, svo ekki sér fyrir endann á því deilumáli.

Fyrir helgi sendi Samkeppniseftirlitið frá sér umsögn um nýtt frumvarp sem virðist vera orðin ný víglína deiluaðila á fjarskiptamarkaði. Snýst frumvarpið um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta, en um er að ræða innleiðingu á ESB tilskipun. Á tilskipunin að auðvelda sameiginlega nýtingu á svokölluðum efnislegum grunnvirkjum fjarskiptakerfisins sem nú þegar eru til staðar og í eigu mismunandi aðila, sem og að hvetja til skilvirkari og ódýrari uppbyggingar á nýjum grunnvirkjum.

Í umsögninni leggur Samkeppniseftirlitið til að frumvarpið fari óbreytt í gegn, og er þá tekið sérstaklega fram að það sem kallaður er svartur ljósleiðari, sem einnig hefur verið kallaður hrár aðgangur að ljósleiðara án bitastraumsendabúnaðar, sé ekki skilgreindur sem hluti efnislegu grunnvirkjana. Grunnvirkin eru hins vegar skilgreind sem lagnir, stokkar, rör, möstur, brunnar, mannop, tengikassar, byggingar og inngangar að þeim, ásamt loftnetsbúnaði, turnum og súlum og annað sem á að hjálpa til við lagningu háhraða fjarskiptaneta, það er ljósleiðara.

„Er Samkeppniseftirlitið sammála þeim skilningi því að öðrum kosti myndi skylda um aðgang að þessu leyti draga úr uppbyggingu fjarskiptavirkja hjá minni fjarskiptafélögum og raska samkeppni með alvarlegum hætti,“ segir meðal annars í umsögninni. Bæði Sýn og Gagnaveita Reykjavíkur sem og helsti eigandi síðarnefnda félagsins, Reykjavíkurborg, leggja áherslu á það í sínum umsögnum að svarti ljósleiðarinn verði ekki gerður hluti af hinum skilgreindu efnislegu grunnvirkjum.

Segir GR í sinni umsögn að sá aðgangur keppinautanna að ljósleiðurum félagsins sem því myndi fylgja yrði kollvörpun tæknilegrar uppbyggingar og fjárfestingar félagsins. Jafnframt myndi fylgja því mikill kostnaður til neytenda þó að tæknilega mögulegt sé að koma aðganginum við.

Fyrirmynd frá fjöllóttu landi

Síminn og dótturfélag þess, Míla, leggja hins vegar á það mikla áherslu í sínum umsögnum að skilgreina ætti svarta ljósleiðarann sem hluta af efnislegu grunnvirkjunum, enda eins og kom fram í máli Orra Haukssonar í Viðskiptablaðinu 26. apríl síðastliðnum óásættanlegt fyrir fyrirtækið að bjóða sína þjónustu á kerfum Gagnaveitunnar á þeim forsendum sem veitan býður.

Að öðrum kosti þurfi að grafa stóran hluta borgarlandsins upp á nýtt svo Síminn geti boðið íbúum margra hverfa á höfuðborgarsvæðinu sína þjónustu eftir eigin höfði. Nefnir fyrirtækið dæmi frá Austurríki þar sem stjórnvöld ákváðu að ganga lengra en Evróputilskipunin, og skilgreina ljósleiðarann sjálfan sem grunnvirki, og færir fyrir því meðal annars þau rök að fjarskipti hér á landi séu erfið og dýr vegna vegalengda, veðurfars, fárra notenda og kostnaðarsamra tenginga við landið.

Fyrirtækið bendir jafnframt á að í mjög mörgum tilfellum sé ljósleiðarinn ekki lagður í rör heldur beint í jörð af hagkvæmnisástæðum, svo frumvarpið hafi takmarkað eða ekkert gildi í þá átt að stuðla að hagkvæmri uppbyggingu og samnýtingu innviða eins og röralagna, ef ljósleiðararnir séu ekki teknir með.

Sama dag og viðtalið við Orra birtist sendi Póst- og fjarskiptastofnun frá sér minnisblað vegna umsagna um frumvarpið þar sem vísað var til þeirrar kröfu Símans og Mílu að færa út gildissvið frumvarpsins svo svarti ljósleiðarinn teldist til grunninnviðanna sem keppinautar ættu að fá aðgang að. Telur stofnunin slíka breytingu hins vegar ekki tæka, heldur væri það grundvallareðlisbreyting á frumvarpinu, þar sem kvöð um samnýtingu á svörtum ljósleiðara gengi gegn markmiðum um að lækka kostnað við uppbyggingu fjarskiptaneta til að stuðla að aukinni og hraðari uppbyggingu þeirra.

Segir stofnunin að engar forsendur séu fyrir hendi til að réttlæta slíkan gagnkvæman aðgang að ljósleiðurum, en tekur hins vegar fram að hægt sé að leggja slíkar kvaðir á fyrirtæki sem stofnunin skilgreini að hafi umtalsverðan markaðsstyrk. Sem gildir einmitt í dag um Símann og Mílu, en í umsögnum fyrirtækjanna um nýja frumvarpið er einnig farið í löngu máli yfir rök fyrirtækisins fyrir því að slík skilgreining ætti ekki lengur við um fyrirtækið enda hafi hún byggst á yfir fimm ára gömlum upplýsingum um stöðu fyrirtækjanna á markaði. Væntanlega þýðir það að ekkert lát verður á þessum deilum í bráð.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.