*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 27. mars 2015 11:59

Ný vísitala fyrir sértryggð skuldabréf hjá GAMMA

GAMMA hefur bætt við nýrri undirvísitölu í skuldabréfavísitölu fyrirtækisins fyrir sértryggð skuldabréf.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

GAMMA hefur hafið opinbera birtingu á vísitölu fyrir sértryggð skuldabréf, GAMMA: Covered Bond Index, sem er undirvísitala í vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa. Vísitalan nær yfir útgáfu sértryggðra skuldabréfa skv. lögum nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf og reglur um sértryggð skuldabréf nr. 528 frá 2008 og er útgáfa þeirra háð leyfi FME. Viðskiptabankarnir þrír, Arion, Íslandsbanki og Landsbanki, nýta sértryggð skuldabréf til fjármögnunar íbúðarlána.

Í tilkynningu kemur segir að markaður með sértryggð skuldabréf sé mikilvægur markaður sem fari ört vaxandi. Í upphafi árs 2012 var einungis ein sértryggð útgáfa á markaðnum, ISLA CBI 16 frá Íslandsbanka, sem var 4 milljarðar að markaðsvirði. Stærð markaðarins í dag er um 71 milljarður, sem jafngildir um 1675% hækkun á þremur árum. Af þeim eru 56 milljarðar í nýju sértryggðu vísitölunni, en mismunurinn skýrist af því að vísitalan útilokar ARION CB 15 vegna námunda við lokagjalddaga.

Nýja vísitalan er endurskoðuð í upphafi hvers mánaðar með tilliti til nýrra útgáfa og eru bréf, sem hafa styttra en 6 mánuði í lokagjalddaga, tekin út. Vísitalan er bakreiknuð aftur til loka mars 2012 og hefur þá gildið 100, en mars/apríl 2012 eru fyrstu mánaðamótin þar sem útgáfurnar eru fleiri en ein – hafði einungis verið ISLA CBI 16 fram að því. Ávöxtun vísitölunnar, miðað við lokagengi 25. mars 2015, hefur verið 6,0% á ársgrundvelli frá upphafi.

Til samanburðar hefur ávöxtun skuldabréfavísitölu GAMMA, sem mælir ávöxtun á ríkistryggðum skuldabréfum, verið 5,2% yfir sama tímabil.