Marissa Mayer, forstjóri bandaríska netfyrirtækisins Yahoo, boðaði sókn á netleitarmarkaði á uppgjörsfundi fyrirtækisins í gær. Fyrirtækið má muna fífil sinn fegurri.

Tvíeykið Jerry Yang og David Filo stofnuðu Yahoo árið 1994 þegar almenningur var að skríða sín fyrstu skref í netheimum og hófst reksturinn árið eftir. Keppnin var hörð við netleitarfyrirtæki á borð við Altavista, WebCrawler og Excite, sem fáir muna eftir í dag. Heillastjarnan virðist hanga yfir rekstri Yahoo eftir því sem netbólan tútnaði út fyrir aldamótin síðustu og sprakk reksturinn út í takt við það.

Yahoo var líkt og fleiri tæknifyrirtæki skráð á hlutabréfamarkað vestanhafs og reis það í takt við bóluna. Hæst náði hlutabréfaverðið 3. janúar árið 2000 í 118,75 dölum á hlut. Það stóð ekki lengi yfir enda sprakk bólan með látum með tilheyrandi hruni fyrir þá sem höfðu fjárfest í hlutabréfum félagsins. Lægst fór það í rétt rúma 4 dali á hlut í september sama ár. Í kjölfarið tók að halla undan fæti hjá Yahoo en m.a. brugðu stjórnendur fyrirtækisins á það ráð að styðjast fremur við netleitartækni keppinautarins Google en sína eigin og draga seglin saman.

Til að bæta gráu ofan á svart héldust bæði forstjórar og aðrir lykilstjórnendur illa innan veggja Yahoo. Til merkis um það voru fimm búnir að verma forstjórastólinn á árunum 2007 og fram á sumarið í fyrra þegar Marissa Mayer var ráðin í júlí. Þar á meðal var annar stofnendanna, Jerry Yang, sem sat í stólnum á árunum 2007 til 2009.

Hver er Marissa Mayer?

Forsíða Fortune.
Forsíða Fortune.

Marissa Mayer er fædd 30. maí árið 1975 og fagnar hún því 38 ára afmæli í ár. Hún var einn af fyrstu starfsmönnum Google þegar hún réðst þar til starfa árið 1999 og var jafnframt fyrsti kvenkyns verkfræðingurinn sem þar bættist við á launaskrá. Hún var í 13 ár hjá Google og kom víða við, s.s. sem framkvæmdastjóri. Þar á meðal var hún yfir flaggskipinu leitarvél Google, Google News, Google Books og netpóstinum Gmail.

Tilkynnt var um það í júlí í fyrrasumar að Marissa Mayer hafi verið ráðin forstjóri Yahoo. Hún tók jafnframt sæti í stjórn fyrirtækisins og hefur því talsvert að segja um stefnu þess í framtíðinni. Mayer situr auk þessa í stjórnum fjölda félaga, s.s. smásölurisans Walmart og menningastofnana á borð við Nýlistasafnið í San Francisco og balletsins í sömu borg. Þetta kallar á mikla vinnu og hefur bandaríska tímaritið Fortune útnefnt hana eina af 50 áhrifamestu konum Bandaríkjanna undanfarin fimm ár.

Það vakti ekki síst athygli á Mayer í kringum ráðningu hennar í fyrrasumar að samdægurs greindi hún frá því að hún gengi með barn. Hún ól son í lok september og er hann fjögurra mánaða um þessar mundir.