Listaháskóli Íslands og Samson Properties ehf. hafa samið um að reisa nýtt skólahúsnæði fyrir Listaháskóla Íslands við Laugaveg. Miðað er við að skólinn taki þar til starfa  haustið 2011. Staðsetning Listaháskólans mun hafa umtalsverð áhrif á miðborgarlíf Reykjavíkur. Um fjögur hundruð nemendur stunda nú nám við skólann og þar eru meðal annars settar upp sýningar og margvíslegir listviðburðir sem opnir eru almenningi.

Í tilkynningu vegna samkomulagsins segir að skólabyggingin verði um 13.500 m² að stærð og hýsir starfsemi allra deilda skólans. Einnig verður þar sameiginlegt list- og þjónusturými, þar með talið tónlistarsalur, leikhús, sýningarsalir, fyrirlestrarsalir, bókasafn, veitingasala og verkstæði. Lóðin undir skólann verður í eigu Listaháskólans en Samson Properties mun eiga skólabygginguna og leigja hana til skólans. Gert er ráð fyrir stækkunarmöguleikum á skólahúsnæðinu á aðliggjandi lóðum norðan Hverfisgötu sem og í húsi Regnbogans.

Menntamálaráðherra og rektor Listaháskólans undirrituðu samning hinn 7. maí síðastliðinn um fyrirhugaða nýbyggingu Listaháskólans sem skapar skilyrði fyrir byggingu hans. Í samningnum tryggir menntamálaráðuneytið Listaháskólanum árlega fjárveitingu úr ríkissjóði fyrir leigugreiðslum. Framlög hefjast þegar hið nýja húsnæði verður tekið í notkun.

Liður í samkomulagi Listaháskólans og Samson Properties eru makaskipti á lóðum. Listaháskólinn lætur Samson Properties fá lóð í Vatnsmýrinni sem skólinn fékk úthlutað frá Reykjavíkurborg þann 7. maí síðastliðinn og fær miðborgarlóðina á móti. Þessi ráðagerð er með samþykki borgarinnar enda er hún í fullu samræmi við sameiginlega viljayfirlýsingu menntamálaráðherra, borgarstjóra og rektors Listaháskólans frá 7. maí 2007.

Efnt verður til hönnunarsamkeppni

Ljóst er að hönnun skólabyggingarinnar verður vandasöm. Reisa þarf framúrskarandi hús sem hæfir starfsemi Listaháskólans og tryggir að gott verði að vinna þar. Byggingin verður afar flókin, enda eru rými fjölbreytileg og þarfir deilda ólíkar. Mikilvægt er að flæði og tengingar innandyra verði góðar. Þá þarf að fella bygginguna að þeirri byggð sem fyrir er og leysa farsællega úr því hvernig farið verður með húsin sem þar standa nú. Til að verkefnið heppnist sem best munu Samson Properties og Listaháskólinn standa saman að hönnunarsamkeppni sem bæði tekur til deiliskipulags fyrir miðborgarlóðina og hönnunar byggingarinnar.

Hönnunarsamkeppnin fer fram í tveimur þrepum. Hið fyrra verður almennt forval sem er öllum opið. Valið verður úr tillögum sem þar koma fram í lokaða samkeppni sem er síðara þrep keppninnar. Markmiðið er að velja bestu tillöguna sem mun fela í sér fullmótaða deiliskipulagstillögu fyrir miðborgarlóðina, hönnunargögn fyrir bygginguna sem og gögn vegna útboðs á verkframkvæmdinni. Samkeppnin mun fara fram á grundvelli samkeppnisreglna Arkitektafélags Íslands.