Fermetraverð nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu mælist nú um 600 þúsund krónur og hefur það hækkað um átta prósent á einu ári. Fermetraverð annarra íbúða er að meðaltali um 100 þúsund krónum lægra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs . Þá hefur meðalsölutími nýrra íbúða styst en meðalsölutími annarra íbúða lengist lítillega.

Eðli málsins samkvæmt er langflestum leigusamningum þinglýst í Reykjavík en sé litið til hlutfallslegrar stærðar leigumarkaðar trónir Reykjanesbær á toppnum. Fjöldi þinglýstra leigusamninga þar nemur fjórtán prósentum af íbúðarstokki sveitarfélagsins. Næst á eftir fylgja Akureyri, Akranes, Reykjavík og Hafnarfjörður.

Í skýrslunni er einnig vakin athygli á að aukning er á bilinu milli lægstu vaxtakjara sem bjóðast hjá bönkum annars vegar og lífeyrissjóðum hins vegar. Lífeyrissjóðslán bjóðast nú á breytilegum verðtryggðum vöxtum allt niður í 2,15 prósent en lægstu vextir sem bjóðast á bönkum eru 3,4 prósent. Sé litið tvö ár til baka nam munurinn þá 0,4 prósentustigum en er nú ríflega þrefalt hærri. Bilið í óverðtryggðum lánum er öllu minna. Dregið hefur úr vexti óverðtryggðra lána sem merkja mátti undir lok síðasta árs.

„Einn af þeim þáttum sem útskýra almennt þann mun sem verið hefur á vaxtakjörum þessara ólíku lánveitenda er hinn svonefndi bankaskattur sem settur var á árið 2010 [...]. Sá skattur nær ekki til lífeyrissjóðanna og eykur því aðeins fjármagnskostnað innan bankakerfisins,“ segir í skýrslunni.

Þá er einnig vikið að því að aðflutningur fólks til landsins sé enn mikill en í fyrra fluttust 6.500 fleiri til landsins en frá því. Árið áður stóð talan í átta þúsund. Fara þarf aftur til áranna 2006 og 2007 til að sjá sambærilegar, en þó eilítið lægri, tölur en þau ár voru aðfluttir umfram brottflutta rúmlega fimm þúsund. Á þeim tíma fjölgaði íbúðum á móti hraðar, um fjögur þúsund íbúðir bættust við húsnæðisstofninn ár hvert samanborið við um tvö þúsund síðustu tvö ár.