*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 9. júní 2020 14:30

Nýbyggingar skýra hærra íbúðaverð

Íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði um 10,7%, en 16% á Akranesi, nýbyggingar líklegar til að skýra mikla hækkun.

Ritstjórn
Talsverð hækkun var á íbúðaverði á fyrsta ársfjórðungi 2020, áhrif COVID líkleg til að koma betur fram á næsta ársfjórðungi.
Haraldur Guðjónsson

Á fyrsta ársfjórðungi 2020 hækkaði íbúðaverð mest milli ára á Akranesi, eða um 16%, samanborið við 3,4% hækkun á höfuðborgarsvæðinu. Ekki mældist samdráttur í íbúðasölu í samkomubanninu á Akranesi, líkt og í öðrum þéttbýliskjörnum. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Maímælingin á íbúðaverði sýndi fram á 10,7% hækkun íbúðaverðs utan höfuðborgarsvæðisins, sem er mesta hækkun milli ára síðan í desember 2018. Á sama tíma hækkaði íbúðaverð um 5,7% á landinu öllu.

Nýbyggingar eru alla jafna dýrari en þær sem eldri eru og getur hlutfallslega mikil sala þeirra skýrt skarpar verðhækkanir. Slíkt er til dæmis líkleg skýring á verðhækkunum á Akranesi, en 19 nýjar íbúðir seldust í fjölbýli á fyrsta fjórðungi þessa árs en engar á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Á Akureyri seldust einnig áberandi margar nýjar íbúðir í fjölbýli á fyrsta fjórðungi þessa árs, eða 38 talsins samanborið við 18 í fyrra. Íbúðaverð á Akureyri hækkaði um 8% á milli ára.

Mánaðarlegur fjöldi íbúðaviðskipta hefur dregist saman í Reykjanesbæ, meira en í öðrum þéttbýliskjörnum. Á fyrsta fjórðungi þessa árs áttu 26% færri viðskipti sér stað en á sama ársfjórðungi í fyrra. Viðskipti voru 11% færri á Árborgarsvæðinu en fjölgaði hins vegar á Akureyri og Akranesi.

Gerir Hagsjá Landsbankans ráð fyrir því að áhrif COVID muni vera meiri á öðrum ársfjórðungi en þeim fyrsta.