Byrjað var að byggja 8,2% fleiri íbúðir í Bandaríkjunum í apríl en í mars og umsóknum um byggingaleyfi fjölgaði í fyrsta sinn í fimm mánuði. Þetta er nokkuð meiri virkni á markaðnum en spáð hafði verið. Aukning nýrra íbúða sem hafist var handa við að byggja er sú mesta síðan í janúar 2006 og aukning umsókna um byggingaleyfi sú mesta síðan í desember sama ár.

Byrjað var að byggja fleiri fjölbýlishús í apríl en í mars, á meðan hafist var handa við færri einbýlishús. Samkvæmt frétt Reuters hefur ekki verið minna um byggingu einbýlishúsa í Bandaríkjunum í 17 ár.

Tala íbúðarhúsa sem byrjað er að byggja í Bandaríkjunum hefur farið lækkandi mánuðum saman, m.a. vegna þess að margir byggingaverktakar sitja uppi með lager af óseldum eignum. Auk þess hafa veðhafar húsnæðislána gengið að veði sínu í íbúðarhúsnæði í auknum mæli upp á síðkastið, og í kjölfarið hafa húsnæðislánaveitendur sett strangari skilyrði fyrir húsnæðislánatöku.

Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og yfirmenn bandaríska Seðlabankans segja niðursveiflu á húsnæðismarkaði vera það sem ógnar bandarísku efnahagskerfi hvað mest um þessar mundir. Stjórnvöld þar í landi hafa unnið af kappi að því að tryggja ótrygg húsnæðislán til að bjarga húsnæðiseigendum frá því að missa íbúðina sína til lánveitenda.