Í vikunni fékkst það staðfest að iðnaðarráðherra Íslendinga, Katrín Júlíusdóttir, væri gengin nokkra mánuði á leið með tvíbura, en Katrín gifti sig fyrr á þessu ári Bjarna Bjarnasyni rithöfundi. Fyrir á Katrín soninn Júlíus.

Iðnaðarráðherrann hefur verið virk í pólitík í tæpa tvo áratugi, þrátt fyrir að verða einungis 37 ára í nóvember næstkomandi. Eftir stúdentspróf sat hún í stjórn Verðandi, ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins og var ritari flokksins í Kópavogi á árunum 1994-1998. Katrín nam mannfræði við Háskóla Íslands á árunum 1995-1999. Þar var hún virk og sýnileg í háskólapólitíkinni. Katrín var fulltrúi Röskvu í Stúdentaráði og háskólaráði Háskóla Íslands á árunum 1997-1999 og var auk þess framkvæmdastjóri Stúdentaráðs skólans seinni veturinn.

Virk í ungliðapólitík

Katrín settist í miðstjórn Alþýðubandalagsins árið 1996 og sat þar fram að aldamótum þegar Samfylkingin var formlega stofnuð með samruna Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Kvennalistansog Þjóðvaka. Hún varð strax sýnileg innan hins nýja flokks sem varaformaður, og síðar formaður Ungra jafnaðarmanna á árunum 2000- 2001. Samhliða sat Katrín í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar þar til hún var kjörin á þing sem alþingismaður Suðvesturkjördæmis árið 2003, 28 ára gömul.

Flutti inn barnafatnað

Sökum þess hversu ung Katrín var þegar hún hóf að helga sig stjórnmálum þá var starfsferill hennar utan þeirra ekki langur. Samhliða námi starfaði hún hjá G. Einarsson og Co sem innkaupastjóri og síðar framkvæmdastjóri á árunum 1994-2000. Fyrirtækið flutti inn barnafatnað og rak verslanir. Síðar starfaði hún sem verkefnastjóri og ráðgjafi hjá ráðgjafar- og hugbúnaðarhúsinu Innn hf. á árunum 2000-2003. Hún var síðan skipuð iðnaðarráðherra 10. maí 2009 í kjölfar alþingiskosninga sem fram fóru í apríl sama ár.

Plokkaði orma

Í aðdraganda alþingiskosninganna 2003 náði Katrín fjórða sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í sínu kjördæmi. Við það tilefni tók DV við hana viðtal. Þar sagði Katrín frá því að hún hafi verið einungis sjö ára þegar hún byrjaði að vinna við að plokka orma úr fiskum og að hún hefði ætlað sér að verða framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þegar hún var lítil. Aðspurð um hvort hún hefði gefið drauminn upp á bátinn sagðist Katrín vera „hætt að máta mig í það starf en hins vegar er hugsjónin enn til staðar. Ég er kannski orðin raunsærri og sé að það er hægt að breyta heiminum með öðrum leiðum“.