Morten Nissen Nielsen, framkvæmdastjóri Nyhedsavisen, þurfti lögreglufylgd er hann yfirgaf höfuðstöðvar blaðsins fyrr í dag.

Æfareiðir blaðberar stóðu þar fyrir mótmælum vegna vangoldinna launa, en engir starfsmenn þess hafa fengið greidd laun fyrir ágústmánuð. Þetta kemur fram hjá dönsku fréttaveitunni Ritzau.

„Hvar eru peningarnir,“ var kallað fyrir utan höfuðstöðvar blaðsins.

Børsen greinir frá því að þegar Nissen Nielsen steig út úr höfuðstöðvunum hafi blaðberarnir umkringt hann, og meinað honum að fara aftur inn.

Framkvæmdastjórinn tók þá sprettinn og kom sér inn um annan inngang að aftan. Að lokum var lögreglan kölluð til og skakkaði leikinn.