Fríblaðið Nyhedsavisen hefur lagt upp laupana. Danskir fjölmiðlar greina frá því í dag að það sé hætt að koma út. Haft er eftir Morten Lund, aðaleiganda blaðsins, að hann harmi endalokin.

„Ég er óendanlega leiður yfir því að þurfa að upplýsa að við höfum í dag þurft að stöðva útgáfu Nyhedsavisen," skrifar hann í netpósti til samstarfsmanna sinna. Hann kveðst - ásamt öðrum forsvarsmönnum blaðsins - hafa barist til síðasta blóðdropa til að bjarga verkefninu, sem þau öll hafi haft trú á.

Ekki hafi hins vegar tekist að fjármagna áframhaldandi útgáfu.

Hann þakkar í lok póstsins öllum þeim sem komu að verkefninu og börðust fyrir því. Gert er ráð fyrir því að ákvörðunin verði kynnt á starfsmannafundi blaðsins á morgun, mánudag.

Mikið áfall fyrir starfsfólkið

Á vef danska blaðamannafélagsins er haft eftir trúnaðarmanni blaðsins að niðurstaðan sé mikið áfall fyrir starfsfólkið. Það hafi hist á bar í Kaupmannahöfn í kvöld til að ræða málin.

„Þetta er eitthvað sem við höfum óttast frá því blaðið hóf göngu sína 6. október. Við vissum öll að við værum að taka áhættu," segir trúnaðarmaðurinn, Mia Christensen. Hún bætir því við að þrátt fyrir það sé þetta mikið áfall. „Ég er hins vegar viss um að fólk verður stolt af því að hafa tekið þátt í þessu verkefni."

Samkvæmt útreikningum Journalisten, fagblaðs danska blaðamannafélagsins, hafa útgefendur blaðsins tapað að minnsta kosti 665 milljónum danskra króna á ævintýrinu.

Lengi lifi Nyhedsavisen!

Íslendingar (Baugur) ýttu Nyhedsavisen úr vör og leit það fyrst dagsins ljós, eins og áður sagði, hinn 6. október 2006. Útgáfa blaðsins varð til þess að fríblaðastríð hófst í Danmörku. Nyhedsavisen náði því þó að verða mest lesna blað landsins.

Danski athafnamaðurinn Morten Lund eignaðist meirihlutann í blaðinu, 51%, í byrjun þessa árs. Í vor bárust fregnir af miklum rekstrarerfiðleikum og í lok júlí var greint frá því að tekist hefði að fá nýjan fjárfesti að verkefninu, bandaríska sjóðinn Draper Fischer Jurvetson. Þá sögðust Morten Lund og aðrir eigendur blaðsins vera bjartsýnir á framhaldið.

Fyrir aðeins tíu dögum kvartaði Lund yfir því á bloggi sínu að danskir fjölmiðlar sýndu Nyhedsavisen óeðlilegan áhuga. „Ég hef gengið í gegnum helvíti þetta sumar vegna Nyhedsavisen," skrifaði hann. Lund sagði að fjölmiðlum væri nær að segja frá tapi keppinauta blaðsins. Það gerði hins vegar enginn. Hann rakti tölurnar sjálfur og endaði bloggfærslu sína með orðunum: Lengi lifi Nyhedsavisen!!

Lögðu 450 milljónir í verkefnið

Þórdís Sigurðardóttir, forstjóra Stoða Invest, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í lok júlí að eigendur Stoða Invest (Baugs) hefðu frá upphafi lagt 450 milljónir danskra króna í verkefnið. Hún sagði jafnframt að íslensku eigendurnir væru bjartsýnir á að ná þeim peningum til baka.  „Ég held að við munum ná okkar fjárfestingu til baka áður en yfir lýkur," sagði hún við Viðskiptablaðið í lok júlí.

(Fréttin var uppfærð kl. 00.00)