Forsvarsmenn knattspyrnufélagsins danska, FC København, hafa rift samningi sem það hefur haft við fríblaðið MetroXpress um að birta upplýsingar er tengjast liðinu og leikjum þess og samið þess í stað við Nyhedsavisen.

Danskir fjölmiðlar greina frá því í dag að héðan í frá muni Nyhedsavisen reglulega birta fjórar blaðsíður af efni sem tengist FCK, svo sem leikjadagskrá og fréttir af liðinu.

Þá verður blaðinu dreift á leikjum liðsins á Parken.

Stærsta dagblaðið á skömmum tíma

„Við erum kátir með samvinnuvinnuna við Nyhedsavisen, sem hefur á skömmum tíma orðið ekki aðeins stærsta dagblað Kaupmannahafnar heldur Danmerkur allrar,” segir í fréttatilkynningu frá markaðsstjóra FCK, Dan Hammer.

Framkvæmdastjóri Nyhedsavisen, Morten Nissen, lýsir einnig yfir ánægju sinni með samstarfið og segir það styrkja stöðu blaðsins og vægi, einkum í Kaupmannahöfn. Sé stefnt að því að blaðið verði ómissandi fyrir alla fótboltaáhugamenn borgarinnar.