Stjórn Nýherja hefur ákveðið að innleiða nýtt skipulag fyrir Nýherja og dótturfélög á Íslandi.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að megin breytingarnar felast í sameiningu félaga í tengdri starfsemi og uppbyggingu stærri eininga sem veita þjónustu á sviði upplýsingatækni.

Skipulagsbreytingarnar felast meðal annars í því að rekstrar- og hýsingarfélagið Skyggnir og fyrirtækið Sense, sem sérhæfir sig í hljóð- og myndlausnum auk Viðju, verða sameinuð móðurfélaginu Nýherja.

Skyggnir og Sense verða áfram vörumerki innan Nýherja og eftir sameininguna verða starfsmenn Nýherja um 270.

Applicon og Vigor, sem sérhæfa sig í lausnum á sviði viðskiptahugbúnaðar verða sameinuð undir nafni Applicon. Í tilkynningunni kemur fram að Vigor lausnir verði þróaðar áfram og hluti af lausnaframboði Applicon. Starfsmenn Applicon verða um 50 eftir sameininguna.

Þá verða TM Software , sem starfar að hugbúnaðarþróun og EMR heilbrigðislausnir , sem á og þróar sjúkraskrárkerfi og lausnir á heilbrigðissviði, sameinuð undir merkjum TM Software. Sjúkraskrárkerfi EMR, svo sem Saga, Hekla og fleiri kerfi verða hluti af lausnaframboði TM Software. Starfsmenn TM Software verða um 65 eftir sameininguna.

Breytingarnar taka gildi 1. apríl næstkomandi og í tilkynningunni segir að þær verði kynntar viðskiptavinum félagsins nánar á næstunni. Heildarfjöldi starfsmanna Nýherjasamstæðunnar hérlendis og erlendis eru um 540.

„Markmið þeirra breytinga, sem nú verða innleiddar hjá Nýherjasamstæðunni er að efla samkeppnisstyrk og sérstöðu félagsins á innlendum markaði og styrkja þjónustuframboð til viðskiptavina þess,“ segir í tilkynningunni.

Helstu stjórnendur í nýju skipulagi eru:

Þórður Sverrisson er forstjóri Nýherja og stjórnarformaður dótturfélaga hérlendis og erlendis. Þá verður Kristinn Þór Geirsson áfram aðstoðarforstjóri og yfirmaður fjármála- og rekstrarsviðs samstæðunnar.

Emil Einarsson er framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Nýherja og Elsa M. Ágústsdóttir er framkvæmdastjóri smásölusviðs Nýherja.

Þá er Þorvaldur Jacobsen framkvæmdastjóri rekstrarlausna Nýherja, sem tekur til allrar þjónustu, sem fram hefur farið á vegum Skyggnis til þessa. Nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn fyrir vörusvið Nýherja.

Ágúst Einarsson er framkvæmdastjóri TM Software og Ingimar G. Bjarnason er framkvæmdastjóri Applicon.