Nýherjafélögin tóku nýlega upp notkun á Facebook At Work, sem er samskiptamiðill sem hefur sömu eiginleika og Facebook, en er sérstaklega hannaður fyrir fyrirtæki.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, að fyrirtækinu hafi verið boðið að taka þátt í verkefninu og að það sé á prófunarstigi, en að reynslan hafi verið góð og að aðrir aðilar hjá fyrirtækinu taki þetta því upp á næstu dögum. „Við erum náttúrulega mjög ánægð að fá boð til að taka þátt í verkefninu. Það hafa nú þegar tvö fyrirtækið tekið þetta upp“ segir Finnur.

Snjöll leið hjá Facebook

Hann telur þetta snjalla leið hjá Facebook til að kynna Facebook At Work og að það einfaldi jafnframt samskipti innan fyrirtækisins. „Það sem er snjallt við þetta er að allir kunna á tólið þegar byrjað er að nota þetta. Þetta einfaldar öll samskipti milli einstaklinga og hópa. Maður getur skilgreint hópa sem eru annað hvort opnir eða lokaðir. En þetta gerir samskipti milli fólks einfaldari og sneggri. Þetta dregur líklegast úr notkun á tölvupósti, myndi maður halda. Það er stundum erfitt að fylgja löngum þræði samræðna á tölvupósti - en það er öðruvísi á Facebook At Work“ tekur Finnur fram.

Finnur leggur áherslu á því að Nýherjasamstæðan byggi mjög mikið á samstarfi einstaklinga og eininga og að tólið gæti einfaldað þau samskipti talsvert.

Hann reiknar jafnframt með að þetta gæti orðið algengara með tíð og tíma. „Maður sér ekki nákvæmlega hvernig þeir ætli að rúlla þessu út. Þetta er snjöll leið að taka nokkur áberandi fyrirtæki til að byrja með. Svo geri ég ráð fyrir að þetta verði eitthvað. Núna er meiri eftirspurn en framboð. Markmiðið hjá þeim er að leggja undir sig fyrirtækjaheiminn eins og einkaheiminn.“

Grundvallarmunur á eign upplýsinga

„Það er þó grundvallarmunur á þessu eins og með eignarhald á því sem fólk setur inn á Facebook“ bendir Finnur á. „Það sem maður setur inn á Facebook At Work er eign fyrirtækisins. Það er því ekkert annað í boði en að fyrirtækið sjálft eigi allar upplýsingarnar. Þetta liggur á okkar vefsvæði sem við eigum. En virknin er þeirra og er bara eitthvað sem sýnir fram á að fólki fellur vel í geð.“

Finnur hefur engar áhyggjur af því að fólk eyði tíma á Facebook At Work. Hann telur frekar að þetta auðveldi samskipti milli aðila og að þetta henti Nýherja mjög vel. Án þess að vita það þá höfum við svolítið verið að bíða eftir þessu tóli. “