Nýherji hefur tekið að sér rekstur og viðhald IP símkerfis fyrir danska hugbúnaðarfélagið SimCorp.

Samkvæmt samningi mun Nýherji sjá um Avaya símkerfi félagsins í 12 starfsstöðvum í 11 löndum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja.

Þar kemur fram að Nýherji mun annast reksturinn í fjarþjónustu frá Íslandi en jafnframt hafa aðgang að viðhalds- og varahlutaþjónustu Avaya.

Nýherji nýtur jafnframt aðstoðar Dansupport, sem er eitt af dótturfélögum Nýherja samstæðunnar í Danmörku, við rekstur símkerfisins.

„Nýherji hefur undanfarin ár byggt upp mikla þekkingu og reynslu í rekstri á Avaya símkerfum, svo sem fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir hér á landi og víða erlendis. Við teljum okkur því vel í stakk búna til þess að takast á við þau verkefni sem samstarfið felur í sér,” segir Þorvaldur Jacobsen framkvæmdastjóri Kjarnalausna Nýherja í tilkynningunni.

SimCorp þróar og selur meðal annars fjárfestingabúnað fyrir stjórnendur í fjármálafyrirtækjum. Hjá félaginu, sem var stofnað árið 1971, starfa nærri 1.100 manns í 14 löndum.