Nýherji hefur brugðist við breyttum aðstæðum í efnahagslífinu með hagræðingaraðgerðum. Laun allra starfsmanna, sem eru með meira en 300.000 krónur í mánaðarlaun lækka um 10% frá og með 1.febrúar 2009.

Þetta kemur fram í sérstakri greinargerð sem Nýherji sendi frá sér í dag. Fjármálaeftirlitið sendi öllum útgefendum hlutabréfa bréf þar sem farið er fram á að þeir birti sérstaka greinargerð um bein og óbein áhrif á þá vegna óvenjulegra aðstæðna. Með greinargerð sinni er Nýherji að bregðast við þessari beiðni.

Í greinargerðinni segir m.a.: „Starfsmönnum hefur fækkað í þeim einingum, sem helst verða fyrir áhrifum af minnkandi eftirspurn. Öllum ráðum verður beitt til þess að lækka rekstrarkostnað með ýmsum hagræðingaraðgerðum. Gengismál íslensku krónunnar eru í mikilli óvissu þessa dagana og stýrivextir mjög háir. Gengisfall krónunnar hefur því haft veruleg áhrif á fjármagnskostnað og erlenda skuldastöðu félagsins eins og fram kemur í 9 mánaða uppgjöri félagsins.“

Þá segir að erfiðleikar við öflun gjaldeyris til greiðslu á erlendum vöruskuldum og gjörbreyttar aðstæður lánsviðskipta við erlenda birgja hafi valdið félaginu erfiðleikum.

Nýherji hyggst hafa samband við viðskiptabanka sinn og leitast eftir að fá frestun á afborgunum lána á næsta ári til að auka svigrúm til að mæta hugsanlegum vanskilum viðskiptamanna og tímabundnum samdrætti verkefna.

Að lokum segir:

„Félagið treystir sér ekki til að meta að öðru leyti bein og óbein áhrif þessa óvenjulega ástands á eigin rekstur og getur því ekki eytt allri óvissu um stöðu félagsins til að stuðla að eðlilegri verðmyndun á hlutabréfum þess að nýju eins og óskað er eftir í bréfi Fjármálaeftirlitsins.“