Nýherji skilaði ríflega 100 milljóna króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við tap upp á 71 milljón króna á sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 158 milljónum króna samanborið við 117 milljóna króna rekstrartap árið áður. Rekstrartekjur samstæðunnar voru rúmir sjö milljarðar króna og stóðu nánast í stað á milli ára.

Gjaldþrot dótturfélags leiddi til tekjufærslu

Á öðrum ársfjórðungi hagnaðist Nýherji um 231 milljón króna sem var 163% aukning á milli ára en hafa ber í huga að endurmat fasteigna hafði jákvæð áhrif á uppgjörið á sama fjórðungi í fyrra. Óreglulegir liðir höfðu einnig áhrif á uppgjörið á 2. ársfjórðungi þessa árs en gjaldþrot Roku ehf., dótturfélags Nýherja, hafði jákvæð áhrif á rekstur samstæðunnar. Áhrif gjaldþrotsins leiddi til 246 milljóna króna tekjufærslu á fjórðungnum en allar eignir og skuldir félagsins hafa verið færðar úr samstæðuefnahagsreikningi. Fram kemur í reikningum Nýherja að félagið hafi gert kröfur í þrotabú Roku ehf. án þess að færa þær kröfur eða mögulegar kröfur á samstæðuna inn í árshlutareikninginn.

Eignasala og hlutafjáraukning

Nýherji vinnur nú að fjárhagslegri endurskipulagningu við viðskiptabanka félagsins og reiknar forstjórinn, Þórður Sverrisson, með að niðurstöður liggi fyrir á næstunni. Reikna má með að félagið auki hlutafé og selji eignir til þess að lækka skammtímaskuldir. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 14,8% í lok júní samanborið við 13,2% um síðustu áramót. Veltufjárhlutfall var rétt undir hálfum í lok júní.

Áætlanir stjórnenda fyrirtækisins gera ráð fyrir að afkoma þess á þriðja og fjórða ársfjórðungi verði betri en hún var á öðrum ársfjórðungi. Bæði innlenda og erlenda starfsemi Nýherja skilaði jákvæðri EBITDA á 2. ársfjórðungi.