„Þetta eru hlutabréf sem við höfum keypt í gegnum tíðina og eigum. Við erum ekki að gefa út nýtt hlutafé af þessu tilefni,“ segir Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður Nýherja. Stjórn fyrirtækisins hefur lagt til að greiða hluthöfum 25 milljóna króna arð vegna síðasta rekstrarárs. Þar af er lagt til að 20 milljónir króna, 80% arðgreiðslunnar, verði í formi hlutabréfa í Nýherja. Arðgreiðslan jafngildir 0,0625 krónum á hlut.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, gagnrýndi þetta form arðgreiðslna á morgunverðarfundi Kauphallarinnar, Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fjárfesta á dögunum og sagði m.a. það almennan ósið að greiða arð út í öðru en beinhörðum peningum.

„Þegar fólk fjárfestir á markaði á það að geta gert kröfu um að fá arð greiddan í peningum en ekki öðrum pappírum,“ sagði Páll og benti á að stjórnendur skráðra fyrirtækja þyrftu að meta hvort þeir sjálfir eða hluthafar væri betur til þess fallnir að meðhöndla það fjármagn sem skapast af hagnaði.

Páll tók dæmi um arðgreiðslu Íslandsbanka árið 2006. Þar var arður greiddur út í hlutabréfum á undirverði, þ.e. bréfum undir markaðsvirði. Það greiðsluform hafi orðið til þess að arðgreiðslustefnan hafi verið mjög lítil. Þá nefndi hann sem annað dæmi frá sama ári þegar Straumur-Burðarás greiddi hluthöfum arð í formi bréfa í öðrum félögum, t.d. Icelandic Group.

Benedikt segir ekkert slíkt í gangi hjá Nýherja. Við arðgreiðsluna verði miðað við markaðsverð hlutabréfanna. Þau verði ekki á undirverði.

Nýherji tapaði 72 milljón króna á síðasta ári. Það svarar til 22 aura á hlut. Af tapinu féllu 124 milljónir króna vegna virðisrýrnunar á viðskiptavild. Árið á undan nam hagnaðurinn 321 milljón króna, sem jafngilti 1,28 króna hagnaði á hlut. Nýherji hefur ekki greitt hluthöfum arð síðastliðin tvö ár.