Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 1,31% eftir mikla lækkun í gær líkt og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um. Námu viðskiptin á hlutabréfamarkaði 4,3 milljörðum króna og stóð vísitalan við lok viðskiptadags í 1.636,70 stigum.

Aðalvísitala Skuldabréfa lækkaði um 0,06% í 2,25 milljarða viðskiptum og stendur hún nú í 1.250,04 stigum.

Lækkun Icelandair hélt áfram

Líkt og í gær lækkaði gengi Icelandair Group mest, þó ólíkt minna en sú fimmtungslækkun sem þá varð, nam hún nú 3,57%. Standa bréf félagsins nú í 16,20 krónum að verðgildi eftir rúmlega milljarðs viðskipti með bréf félagsins í dag.

Eina annað félagið sem lækkaði í kauphöllinni í dag var HB Grandi, en gengi bréfa félagsins lækkaði um 0,73% í 11,3 milljóna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 27,20 krónur.

Nýherji hástökkvari dagsins

Að öðru leiti hækkaði gengi flestra bréfa í kauphöllinni í dag eftir lækkanir gærdagsins, en þá lækkaði gengi allra bréfa nema bréfa Nýherja.

Nýherji er hástökkvari dagsins með 13,04% hækkun í 114 milljón króna viðskiptum og standa bréf félagsins nú í 28,60 krónum.

Næst mest hækkaði gengi bréfa Haga eða um 3,39% í 620 milljón króna viðskiptum. Er hvert bréf félagsins nú verðlagt á 51,90 krónur.