*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 24. október 2014 17:29

Nýherji hagnast um 137 milljónir

Hagnaður á þriðja ársfjórðungi er undir væntingum en rekstur á fyrstu níu mánuðunum er á áætlun að sögn forstjórans.

Ritstjórn
Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja.
Aðsend mynd

Nýheri hagnaðist um 12 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi samkvæmt uppgjöri. Finnur Oddsson, forstjóri fyrirtækisins, segir í tilkynningu að þetta sé undir væntingum. Á fyrstu níu mánuðum ársins nemur hagnaðurinn 137 milljónum og segir Finnur að reksturinn á því tímabili sé á áætlun.

EBITDA nam 188 milljónum króna á þriðja ársfjórðingi og 586 milljónum á fyrstu níu mánuðum ársins.  Vöru- og þjónustusala á þriðja ársfjórðungi nam 2.545 milljónum króna og 8.257 milljónum á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er aukning frá því á sama tíma í fyrra, en fyrstu níu mánuði ársins 2013 nam vöru- og þjónustusala 7.888 milljónum króna.

Framlegð á þriðja ársfjórðungi nam 669 mkr (26,3%) og 2.171 (26,3%) á fyrstu níu mánuðum ársins. Á þriðja ársfjórðungi í fyrra nam framlegð 547 milljónum (22,6%) og fyrstu níu mánuðina 1.774 milljónum (22,5%).

„Ágætur gangur var í rekstri móðurfélags Nýherja, á þriðja ársfjórðungi," segir Finnur í tilkynningu.  „Sala á tölvu- og tæknibúnaði var í heild yfir áætlun. Sala á Lenovo tölvum hefur vaxið töluvert síðustu misseri en tæplega tíu þúsund tölvur hafa verið seldar til fyrirtækja og einstaklinga það sem af er ári.

Tekjur TM Software vaxa enn verulega á milli ára, einkum vegna mikils vaxtar í sölu á Tempo hugbúnaði sem nú stendur á bak við 44% af veltu félagsins."

Í uppgjörinu kemur fram að afkoma Applicon félaganna sé undir áætlun. Er skýringin sögð sú að þróunarkostnaður hafi verið hærri á þriðja ársfjórðungi heldur en áætlanir hafi gert  ráð fyrir. Þá kemur fram að ágætis horfur séu hjá Applicon félögunum fyrir fjórða ársfjórðung.

„Nýtt skipulag fyrir Nýherja móðurfélag hefur tekið gildi, en því er ætlað að einfalda starfsemi félagsins, bæta þjónustu og efla sölustarf. Áfram verður unnið að bættu skipulagi og skilvirkari uppbyggingu samstæðunnar, með það að markmiði að bæta afkomu og styrkja eiginfjárstöðu félagsins.“