Heildarhagnaður Nýherjasamstæðunnar á öðrum ársfjórðungi nam 166 saman borið við 73 milljónir á sama tímabili í fyrra. Skýrist hagnaðaraukningin að mestum hluta af því að fjármunatekjur jukust um 130 milljónir frá öðrum ársfjórðungi 2016. Sala á vöru og þjónustu nam 3.608 milljónum á öðrum ársfjórðungi og dróst saman um 4,9% frá sama tímabili í fyrra. Framlegð nam 904 milljónum samanborið við 931 milljón á síðasta ári.

EBITDA tímabilsins nam 211 milljónum króna og dróst saman um 18,5% frá öðrum ársfjórðungi síðasta árs.

Eignir félagsins námu 6.220 milljónum í lok tímabilsins á meðan skuldir námu 3.494 milljónum. Eiginfjárhlutfall var 43,8% í lok annars ársfjórðungs en var 39,7% í lok mars.

Heildarhagnaður félagsins á fyrri helmingi þessa árs nam 237 milljónum króna samanborið við 111 milljónir á sama tímabili árið 2016.

Í tilkynningu frá Nýherja segir Finnur Oddsson, forstjóri fyrirtækisins:

„Hagnaðar Nýherjasamstæðunnar á öðrum ársfjórðungi og fyrri árshelmingi í heild var góður, 237mkr samanborið við 111 mkr í fyrra. Engu að síður eru all nokkrar ögranir í rekstri samstæðunnar, en áframhaldandi launaskrið og miklar sveiflur á gengi íslensku krónunnar hafa almennt neikvæð áhrif á rekstur og draga úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, bæði til skemmri og lengri tíma.

Samdráttur var í tekjum og rekstrarhagnaði á öðrum ársfjórðungi, sem er ekki ásættanlegt þó samdráttinn megi að hluta skýra með mikilli styrkingu krónunnar á tímabilinu þar sem stór hluti tekna samstæðunnar er í erlendum gjaldmiðlum eða tengdur verði þeirra. Félagið hefur að hluta til varist gengissveiflum með áhættuvörnum sem styrkja niðurstöðu uppgjörs að þessu sinni.

Drifkraftur í vexti Nýherjasamstæðunnar á fyrri helmingi árs er áfram í sölu og þjónustu á hugbúnaðarlausnum, tækniráðgjöf og rekstrarþjónustu, en spurn eftir þjónustu af þessu tagi, skýlausnum og aukinni sjálfvirkni, hefur farið vaxandi síðustu misseri.  Sala á PC tölvum og hljóð- og myndbúnaði hefur gengið vel en samdráttur var í sölu á miðlægum búnaði á öðrum ársfjórðungi.

Tekjur Tempo vaxa áfram hratt, um 36% (í USD) frá fyrra ári.  Mikilvægum stefnumótandi áfanga var náð þegar ný kynslóð af Tempo Cloud for JIRA var tekin í notkun. Flutningi viðskiptavina yfir á nýja lausn er lokið, en með þessari nýju kynslóð er virkni Tempo lausnarinnar bætt til muna og mögulegt er að samþætta hana við aðrar skýjaþjónustur en eingöngu JIRA frá Atlassiðn. Við horfum nú til þeirra tækifæra sem nú opnast til frekari vaxtar og vöruþróunar á mun stærri markaði en hefur hingað til verið aðgengilegur fyrir Tempo.

Umsvif Applicon, TM Software og hugbúnaðarsviðs Nýherja jukust einnig, en gróska er í þróun hugbúnaðarlausna. Meðal nýrra lausna sem kynntar hafa verið eru Driver Guide frá TM Software, sem er lausn fyrir bílaleigur og CCQ, gæðastjórnunarlausn í skýinu, sem hvoru tveggja hafa hlotið góðar viðtökur. Stefnt er að því að bjóða CCQ og Driver Guide á fleiri mörkuðum en þeim íslenska þegar fram líða stundir.

Við erum um margt ánægð með stöðu Nýherjasamstæðunnar, bæði m.t.t. áhugaverðra verkefna sem við sinnum fyrir góða viðskiptavini og einnig hefur fjárhagsstaðan sjaldan verið betri, en eiginfjárhlutfall stendur nú 44%.  Félagið stendur því sterkt í dag, en það er ljóst að áfram má búast við að ákveðnir þættir í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja verði ögrandi og að alþjóðleg samkeppni hafi æ meiri áhrif á innlendan rekstur.“