Heildarhagnaður Nýherjasamstæðunnar á þriðja ársfjórðungi nam 92,7 milljónir á þriðja ársfjórðungi ársins 2016. Hagnaður félagsins á sama tíma í fyrra var lægri eða 82,3 milljónir. EBIDTA Nýherja nam tæpum 247 milljónum á þriðja ársfjórðungi ársins — samanborið við 240 milljónir á sama tíma í fyrra.

Framlegð Nýherjasamstæðunnar nam tæpum 860 milljónum á þriðja ársfjórðungi, en á sama tíma fyrir ári nam hann 828 milljónum. Nýherji seldi vörur og þjónustu fyrir 3,4 milljarða á tímabilinu samanborið við rúma þrjá milljarða á þriðja ársfjórðungi í fyrra og því var tekjuvöxtur samstæðunnar 14% milli ára.

Eiginfjárhlutfall var 32,5% í lok þriðja ársfjórðungs en þar var 30,8% í lok annars ársfjórðung. Eigið fé Nýherja í lok rekstrartímabilsins nam 2,1 milljarði. Skuldir Nýherjasamstæðunnar námu hins vegar 4,4 milljörðum.

Hagnaður fyrstu níu mánaða ársins 2016 var 173 milljónir samanborið við 201 milljónir árið 2015.

Haft er eftir Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja, í fréttatilkynningu frá félaginu að rekstur samstæðunnar væri á áætlun á þriðja ársfjórðungi og taldi hann jákvætt að tekjuvöxtur var meiri á fjórðungnum en fyrripart árs. Afkomuna telur hann viðunandi en hann telur það jákvætt að vaxtaberandi skuldir félagsins lækki umtalsvert og eiginfjárstaða félagsins haldi áfram að styrkjast.

Þar kemur einnig fram að: „Almennt gengur rekstur Nýherja og dótturfélaga vel, sérstaklega í hugbúnaðartengdri starfsemi þar sem tekjuvöxtur hefur verið umtalsverður.  Til að mynda voru tekjur Tempo á fjórðungnum USD 3,2 m og USD 9,4m á árinu, sem er 43% aukning á þriðja ársfjórðung.  Við sjáum svo einnig töluverða tekjuaukningu hjá Applicon AB, TM Software og hugbúnaðarsviði Nýherja. Það er því góð eftirspurn eftir okkar lausnum og eitt helsta viðfangsefnið okkar er að ná að anna henni en jafnframt gæta að kostnaði í rekstrinum.“