Upplýsingatæknifyrirtækið Nýherji hefur hlotið alþjóðlega tölvuskýs vottun (Cloud Accelerate), fyrst íslenskra samstarfsaðila Microsoft.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja að þau fyrirtæki sem hljóta Cloud Accelerate-vottun Microsoft hafi innleitt Office 365-þjónustu til að minnsta kosti þriggja fyrirtækja með að lágmarki 150 notendur.

Nýherji hefur náð þessu markmiði og gott betur; er nú kominn með vel á annað þúsund notendur.

„Cloud Accelerate vottun sýnir svo ekki verði um villst að Microsoft ráðgjafafar Nýherja eru sérfræðingar í hönnun, uppsetningu og aðlögun á sérhæfðri skýjaþjónustu eins og Office 365, sem tryggir viðskiptavinum meiri skilvirkni og aukið hagræði,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi í tilkynningu.