Sjórnendur Nýherja gera ráð fyrir að aðgerðir sem félagið hyggst ráðast í og hafa verið kynntar muni leiða til yfir 600 milljóna króna kostnaðarlækkunar í rekstri samstæðunnar á Íslandi á árinu 2009.

Í uppgjörstilkynningu félagsins kemur fram að Nýherji greip í október til fjölþættra aðgerða til að lækka rekstrarkostnað og styrkja rekstur móðurfélagsins og dótturfélaga, svo sem með tilkynningu um að lækka laun starfsmanna um 10% frá 1. febrúar og slá á frest frekari verkefnum í hugbúnaðarþróun hérlendis og erlendis.

Tap Nýherja á fjórða ársfjórðungi nam 507 milljónum króna og tap á árinu er 1.201 milljónir króna.

Sala á vöru og þjónustu nam rúmlega 14.650 milljónum kr á árinu 2008, samanborið við 11.301 milljónir kr. á sama tímabili árið áður. Sala hefur því aukist um 30% á milli ára. Tekjur starfseminnar á Íslandi námu 11.134 mkr, en 3.517 mkr hjá erlendum dótturfélögum.