Fimm milljóna króna hagnaður var á rekstri Nýherja á þriðja ársfjórðungi, en tap félagsins það sem af er ári nemur hins vegar tæplega tíu milljónum. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á þriðja ársfjórðungi nam 125 milljónum, en á fyrstu níu mánuðum ársins nam hann 335 milljónum króna.

Í fyrra nam EBITDA á fyrstu níu mánuðum ársins 376 milljónum og hagnaður nam 17,9 milljónum króna.

Í tilkynningu frá félaginu segir að afkoma Nýherja móðurfélagsins á þriðja ársfjórðungi hafi í heildina verið góð. Hjá tæknisviði hafi alrekstrarþjónusta gengið vel og mörg ný fyrirtæki bæst í hóp viðskiptavina. Má meðal þeirra nefna Neyðarlínuna, en Nýherji annast rekstur á netkerfum, netþjónum, símkerfi og notendaþjónustu á tölvubúnaði fyrir alla starfsmenn félagsins. Horfur á afkomu tækniþjónustu Nýherja eru sagðar vænlegar.

Í tilkynningunni er haft eftir Þórði Sverrissyni, forstjóra Nýherja, að umtalsvert tap hafi verið af SAP hugbúnaðarráðgjöf hjá erlendum dótturfélögum, en gert sé ráð fyrir að viðsnúningur verði í þeim rekstri í upphafi næsta árs. Áfram sé mikill vöxtur í sölu á eigin hugbúnaðarvörum svo sem tímaskráningakerfinu Tempo.