Upplýsingatæknifyrirtækið Nýherji hefur ákveðið að flytja hýsingarþjónustu sína í gagnaver Verne Global í Reykjanesbæ.

Í tilkynningu um málið segir að markmiðið með breytingunni er að tryggja viðskiptavinum Nýherja aðgang að fullkomnasta gagnaveri landsins í aðstöðu sem jafnast á við það besta sem gerist á heimsvísu. Breytingin mun hafa jákvæð áhrif á þjónustu við viðskiptavini, fyrst og fremst í auknu öryggi og áræðanleika kerfa í rekstri Nýherja. Nýherji og Verne Global ætla einnig að hefja samstarf m að veita innlendum og erlendum viðskiptavinum betri lausnir í hýsingarþjónustu og uppbyggingu gagnaversiðnaðar á Íslandi.

Finnur Oddson, forstjóri nýherja segir í tilkynningu um málið:

„Sú ákvörðun að útvista þessum mikilvæga hluta af starfsemi Nýherja er í takt við þá stefnu sem við höfum fylgt síðustu ár að leysa ýmis verkefni á sviði upplýsingatækni í samstarfi við öfluga samstarfsaðila. Nýherji hefur undanfarin ár byggt upp eitt fullkomnasta UT þjónustukerfi landsins. Um leið hefur Verne Global byggt eitt fullkomnasta gagnaver landsins. Saman getum við tryggt viðskiptavinum okkar áfram framúrskarandi þjónustu í upplýsingatækni,“

„Það er afar ánægjulegt að hefja samstarf við Nýherja,“ segir Jeff Monroe forstjóri Verne Global.

„Fyrirtæki um heim allan leita stöðugt nýrra leiða til að mæta vaxandi eftirspurn um gagnanotkun. Af þeim sökum er samstarfið mikilvægt bæði fyrir Verne Global og íslenskan gagnaversiðnað.“

Mikill vöxtur hjá Verne Global

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir stuttu að Verne Global leigt 60.000 fm lóð til 99 ára af Kadeco, þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, til viðbótar við þá 180.000 fm sem fyrir voru.

Isaac Kato, einn stofnenda og framkvæmdastjóri fjármálasviðs Verne Global sagði þá um stækkunina að „Við þurfum einfaldlega meira pláss. Verne hefur vaxið mjög hratt undanfarin ár og við erum að stækka við okkur núna og bú- umst við að þurfa að nota það pláss á næstu árum. Það var alltaf möguleiki að við þyrftum að gera það og núna vorum við að ganga frá því,“