Vátryggingafélag Íslands (VÍS) hefur samið við Nýherja um rekstur á útstöðvum upplýsingatæknikerfa og notendaþjónustu.

Fram kemur í tilkynningu að öll notendaþjónusta verður hjá Umsjá Nýherja, sem er opin allan sólarhringinn, allt árið um kring. Umsjá er mönnuð reyndum UT sérfræðingum þar sem megin áhersla er lögð á að ljúka þjónustu á meðan símtali stendur. Nýherji mun einnig veita VÍS notendaþjónustu með viðveru tæknimanna á staðnum eftir því sem þörf er á.

Nýherji starfar samkvæmt ITIL þjónustuferlum (Information Technology Infrastructure Library) en þeim er ætlað að tryggja framúrskarandi þjónustustig til viðskiptavina í rekstrarþjónustu.

„Markmið okkar hjá Nýherja er að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu sem gerir þeim kleift að einbeita sér að eigin kjarnastarfsemi og viðskiptavinum. Það er því okkur mikið ánægjuefni að jafn öflugt tryggingafélag og VÍS, sem á sér djúpar rætur í íslensku samfélagi, sé orðinn hluti af góðum viðskiptavinahópi okkar. Við hlökkum til farsæls samstarfs,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, í tilkynningunni.