Nýherji hagnaðist um 110,9 milljónir króna á síðasta ári. Þetta er talsverður viðsnúningur á milli ára en félagið tapaði rétt rúmum 72 milljónum króna árið 2011. Nýherji og dótturfélögin TM Software og Dansupport í Danmörku skiluðu ágætri afkomu en tap varð á rekstri Applicon í Danmörku.

Fram kemur í uppgjöri Nýherja sem birt var í dag að tekjur samstæðu Nýherja hafi numið tæpum 14,2 milljörðum króna samanborið við tæpa 15,5 milljarða árið 2011.

Þá kemur fram í uppgjörinu að rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 480,6 milljónum króna samanborið við 532 milljónir árið 2011.

Í lok síðsta árs námu eignir Nýherja rétt tæpum 8,1 milljarði króna samanborið við rúma 8,4 milljarða í lok árs 2011. Á móti námu skuldir 5,8 milljörðum króna samanborið við rúma 6,2 milljarða í lok árs 2011.

Tekið er fram í uppgjörinu að árleg virðisrýrnunarpróf voru framkvæmd á viðskiptavild samstæðunnar í lok síðasta árs. Virðisrýrnun vegna viðskiptavildar dótturfélagsins Applicon í Danmörku hafi numið 92 milljónum króna og er hún gjaldfærð í uppgjörinu.

Fjárfestakynning Nýherja
Fjárfestakynning Nýherja
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Afkoma Applicon ekki viðunandi

Í tilkynningu frá Nýherja dregur forstjórinn Þórður Sverrisson fram tapreksturinn á Applicon-félögunum úti.

„Applicon félögin erlendis voru rekin með tapi á árinu, sem einkum má rekja til kostnaðarsamrar uppsetningar sem Applicon í Svíþjóð hefur unnið að fyrir sænskan banka. Applicon í Danmörku var rekið með halla framan af ári en skilaði hagnaði á síðasta ársfjórðungi. Afkoma Applicon félaganna er óviðunandi, en við væntum þess að eftirspurn eftir SAP lausnum aukist á næstu misserum og styrkist þá einnig rekstur Applicon félaganna,“ segir hann.

Uppgjör Nýherja