Nýherji tapaði 100 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi og nemur þá taprekstur samstæðunnar rétt rúmlega einum milljarði króna frá áramótum. TIl samanburðar nam hagnaður fyrirtækisins rétt tæpum fimm milljónum króna á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Í uppgjöri Nýherja kemur m.a. fram að rekstrarhagnaður hafi numið tæplega 71 milljón króna á fjórðungnum og 218 milljónum frá áramótum. Til samanburðar nam rekstrarhagnaðurinn rúmum 126 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Vöru- og þjónustusala Nýherja nam 2.897 milljónum króna á fjórðungnum samanborið við tæpan 3,1 milljarð á sama fjórðungi í fyrra.

Eigið fé Nýherja-samstæðunnar nam 1.187 milljónum króna í lok fjórðungsins og var eiginfjárhlutfallið 18,4%.

Afkoman var óásættanleg

Haft er eftir Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja, sem nýverið tók við af Þórði Sverrissyni, að lakari afkoma á fjórðungnum sskýrist ð stærstum hluta af einskiptiskostnaði vegna skipulagsbreytinga en líka vegna áframhaldandi tapreksturs hjá Applicon A/S í Danmörku. Viðsnúningur hafi hins vegar orðið á rekstri Applicon í Svíþjóð sem skilaði hagnaði á fjórðungnum. Rekstur Applicon á Íslandi gengur vel, sem og rekstur TM Software þar sem vöxtur tekna er umfram áætlanir.

Þá segir Finnur afkomu Nýherja-samstæðunnar hafa verið óásættanlega um þó nokkurt skeið. Nú sé unnið að stefnumótun og endurskilgreiningu á megináherslum til lengri tíma og sé markmiðið að efla þjónustu, bæta afkomu og styrkja eiginfjárstöðu félagsins.