Tap Nýherja á fyrstu sex mánuðum ársins nam 986,2 milljónum króna, samanborið við 7,7 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra. Tap félagsins á öðrum ársfjórðungi nam 874,1 milljón króna, en var 8,1 milljón á öðrum ársfjórðungi 2012.

Í ársreikningi kemur fram að 835 milljóna króna gjaldfærsla á eignfærðri viðskiptavild Applicon í Danmörku komi inn í reikninginn á öðrum ársfjórðungi og skýri að stærstum hluta þetta mikla tap. Áætlanir um afkomu Applicon í Danmörku gengu ekki eftir.

Þegar horft er framhjá þessari gjaldfærslu nemur tap Nýherja á fyrri helmingi ársins 151,2 milljónum króna.

Framlegð fyrirtækisins á fyrri helmingi ársins, þ.e. mismunur seldra vara og þjónustu annars vegar og vörunotkunar og kostnaðarverðs seldrar vöru hins vegar, nam 1.348,3 milljónum króna en var 1.472,6 milljónir á sama tímabili í fyrra. EBITDA hagnaður nam 146,9 milljónum króna á fyrri helmingi þessa árs, en var 209,7 milljónir á sama tíma í fyrra.

Skuldir Nýherja námu í lok júní 5.472 milljónum króna, en voru 5.807 milljónir í ársbyrjun. Eignir lækkuðu úr 8.099 milljónum í 6.759 milljónir og eigið fé lækkaði úr 2.293 milljónum í 1.287 milljónir króna.