Tap Nýherja á síðasta ári nam alls um 1,2 milljörðum króna samanborið við hagnað upp á 420 milljónir króna árið áður.

Þó jókst sala á vöru og þjónustu félagsins um 30%  milli ára og nam um 14,6 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í ársuppgjöri Nýherja sem í dag var til umfjöllunar á stjórnarfundi félagsins. Uppgjörið hefur þó ekki verið staðfest af stjórn og endurskoðendum félagsins. Endanlegur ársreikningur 2008 verður lagður fyrir stjórn og endurskoðendur til staðfestingar þann 30. janúar og birtur þann dag.

Þá kemur fram að laun og launatengd gjöld námu rúmlega 5,9 milljörðum króna en voru tæpir 3,3 milljarðar árið áður. Meðalfjöldi stöðugilda yfir árið var 731.

Þá er hækkun launa sögð skýrast af mikilli fjölgun starfsmanna vegna kaupa á TM Software og einnig af hækkun launa erlendra starfsmanna mælt í íslenskum krónum.

Rekstrarkostnaður var rétt tæpir 2 milljarðar króna á árinu en var rúmur 1,1 milljarður árið áður.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta -EBITDA - nam 309 milljónum króna á tímabilinu en var 706 milljónir króna árið áður.

Hrein fjármagnsgjöld voru 1,48 milljarðar króna í samanburði við rúmlega 92 milljónir króna á sama tímabili árið 2007. Í tilkynningunni kemur fram að hækkun á fjármagnsgjöldum má rekja til 80% lækkunar krónunnar á tímabilinu og meiri skuldsetningar samstæðunnar vegna kaupa á fyrirtækjum.

Tekjur af erlendri starfssemi félagsins nam um 3,5 milljörðum króna sem er um 24% af heildartekjum samkvæmt tilkynningunni.

„Rekstur og afkoma Nýherja hf. á fjórða ársfjórðungi ber merki þeirra skyndilegu sviptinga, sem urðu í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja eftir fall bankanna í október og stórfellda lækkun á verðgildi íslensku krónunnar,“ segir Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja í tilkynningu frá félaginu.

Hann segir að Nýherji hafi í október gripið til fjölþættra aðgerða til að lækka rekstrarkostnað og styrkja rekstur móðurfélagsins og dótturfélaga, svo sem með tilkynningu um að lækka laun starfsmanna um 10% frá 1. febrúar og slá á frest frekari verkefnum í hugbúnaðarþróun hérlendis og erlendis.

Gert er ráð fyrir að aðgerðir sem kynntar hafa verið muni leiða til yfir 600 milljóna króna kostnaðarlækkunar í rekstri samstæðunnar á Íslandi á árinu 2009.