*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 13. janúar 2018 14:05

Nýherji var of sterkt vörumerki

Forstjóri Origo segir markmiðið með sameiningu Nýherja, Applicon og TM Software að skapa alhliða fyrirtæki í upplýsingatækni.

Snorri Páll Gunnarsson
Finnur Oddsson, forstjóri Origo, segir fyrirtækið vera í sóknargír.
Haraldur Guðjónsson

Upplýsingatæknifyrirtækið Ný­herji og dótturfélögin Applicon og TM Software hafa sameinast undir nafninu Origo. Samruni félaganna tók formlega gildi um síðustu áramót. Finnur Oddsson, forstjóri Origo, segir að markmiðið með sameiningunni sé að skapa alhliða fyrirtæki í upplýsingatækni með heildstætt lausnarframboð.

„Með því að sameina þessi þrjú félög saman í eitt erum við að setja saman heildstætt lausnarframboð, segir Finnur í samtali við Viðskiptablaðið. „Í stað þess að reka þrjú aðskilin félög geta viðskiptavinir okkar – íslensk fyrirtæki og einstaklingar – nú leitað til okkar á einum stað um flest af því sem viðkemur upplýsingatækni, hvort sem um er að ræða innviði, vélbúnað, hýsingarþjónustu, viðskiptalausnir, sértæka hugbúnaðarþróun eða annað.“

Hann bætir því við að breytingin eigi einnig að einfalda skipulag fyrirtækisins, auka hagkvæmni í rekstri og gera fyrirtækinu kleift að koma skilaboðum til viðskiptavina með skilvirkari hætti.

Áætlað er að tekjur Origo hafi verið ríflega 15 milljarðar króna á síðasta ári og taldi félagið 440 starfsmenn. Nýherji hefur verið skráð á innlendum hlutabréfamarkaði frá árinu 1997. Engar breytingar eru fyrirhugaðar með bréf félagsins á markaði, en félagið hefur fengið nýtt auðkenni í Kauphöllinni.

Fóru í naflaskoðun

Sameining félaganna þriggja undir nýju nafni hefur verið í undirbúningi frá því í maí á síðasta ári. Sameiningin kom út úr ítarlegri undirbúningsvinnu, sem fólst í sjálfsrýni og könnunum meðal viðskiptavina.

„Viðskiptavinir sögðu að við værum góð í því sem við erum að gera, traust, ábyrg og áreiðanleg. En bæði starfsmenn og viðskiptavinir voru sammála um að gera nokkrar breytingar: að draga úr hógværð, láta meira í okkur heyra varðandi lausnir og hvað við værum að gera, og sýna af okkur meiri sóknarkraft, dirfsku og léttleika. Það er því ákall um það hjá viðskiptavinum að við gerum meira fyrir þá, sem er gott veganesti fyrir okkur,“ segir Finnur.

Tengja Nýherja við tölvur og tæknibúnað

Stór liður í undirbúningsvinnunni var síðan að ákveða undir hvaða nafni sameiningin myndi eiga sér stað, hvort heldur undir Nýherja eða nýju nafni. Að lokum varð orðið origo fyrir valinu. Origo kemur úr latínu og merkir uppruni, upphaf eða uppspretta.

„Upplýsingatækni er sú grein sem er og hefur verið að breytast hvað hraðast í heimunum. Þar er nýsköpun og þróun algjör forsenda fyrir velgengni. Origo merkir upphaf og það er nákvæmlega það sem þetta gengur út á hjá okkur. Við erum alltaf að skapa eitthvað nýtt – nýjar lausnir og leysa ný verkefni. Í þessu nafni drögum við fram okkar markmið, framtíðarsýn og gildi. Nýherji, Applicon og TM Software eiga langa og farsæla sögu, og á þeim grunni erum við að hefja nýja vegferð undir þessu sameinaða vörumerki, sem endurspeglar þær áherslur sem við munum leggja í auknum mæli til framtíðar,“ segir Finnur. 

En af hverju var fyrirtækið ekki sameinað undir heiti Nýherja?

„Eins þversagnakennt og það kann að vera þá má segja að Nýherji hafi einfaldlega verið of sterkt vörumerki,“ segir Finnur.

„Nýherji hefur verið til í 25 ár, þó að forsagan nái allt til ársins 1899, og er því mjög vel þekkt. Það hefur haft afgerandi jákvæð áhrif á landslagið í upplýsingatækni á Íslandi. En Nýherji stendur fyrir ákveðinn hluta af okkar starfsemi. Fólk tengir Nýherja við tölvur og tæknibúnað. Sú starfsemi hefur verið burðarásinn í starfsemi samstæðunnar og verður það áfram. Það verður engin upplýsingatækni án tæknibúnaðar. En okkar starfsemi er fjölbreyttari en það. Hún tengist einnig hugbúnaði, þjónustu og ráðgjöf. Þess vegna töldum við það heppilegra að finna sameinuðu félagi nýtt nafn í stað þess að endurskilgreina Nýherja-vörumerkið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Applicon Nýherji Finnur Oddsson TM Software Origo