Stjórn Nýherja hf. hefur samþykkt að styrkja fjárhagsstöðu sína með því að hefja undirbúning að útgáfu og sölu á nýju hlutafé.

Að sögn Þórðar Sverrissonar, forstjóra Nýherja, hefur verið fyrir hendi heimild til að auka hlutafé um 15% eða um 35 til 40 milljónir króna að nafnverði. Hann sagði að hugsanlega yrði þessi heimild aukin en það væri skoðun stjórnar að það þurfi að styrkja eigið fé félagsins.

Eiginfjárhlutfall félagsins er núna um 17% og hefur lækkað milli ára, og sagði Þórður að stjórn félagsins teldi þetta of lágt hlutfall, sérstaklega vegna erlendra umsvifa félagsins en um þriðjungur rekstrartekna þess kemur nú erlendis frá.

Að sögn Þórðar er stefna félagsins að eiginfjárhlutfall sé í kringum 35 til 40%. Ekki hefur verið samið við fjármálastofnun um framkvæmd útboðsins.