Að setja tíu þúsund króna seðil í umferð sem tvöfaldar verðgildi stærsta seðilsins er undarlegt á tímum þegar mikil barátta fer gegn svartri atvinnustarfsemi og glæpum, segir Ari Skúlason hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans í nýjum pistli á síðu bankans .

Hann bendir á að notkun reiðufjár skilur ekki eftir sig spor og hentar því neðanjarðarhagkerfinu mjög vel. „Á síðustu misserum hafa áhyggjur yfirvalda, hagsmunsamtaka á vinnumarkaði og fleiri farið vaxandi vegna stóraukinnar svartrar atvinnustarfsemi, bótasvika og stækkunar neðanjarðarhagkerfis. Auðvitað ganga margir með eitthvert laust fé á sér af eðlilegum ástæðum, en oft er það líka þannig að þeir sem eru með mikið reiðufé í fórum sínum hafa farið á svig við lög og reglur, t.d. með því að þiggja greiðslu fyrir svarta vinnu af einhverju tagi. Tvöföldun á verðgildi stærsta seðilsins í umferð gerir svartri starfsemi mun auðveldara fyrir en ella,“ segir Ari.

Frá bankahruni hefur notkun á reiðufé aukist mjög mikið. Aðeins um 3% af greiðslum voru í reiðufé fyrir hrun en er nú um það bil 9%, að því er segir í pistli Ara. Bendir hann á að Kanadamenn tóku úr umferð 1.000 dala seðil fyrir þrettán árum og nú sé rætt um það í Noregi að taka stærsta og jafnvel tvo stærstu seðlana úr umferð til að gera svarta vinnu og glæpi erfiðari.

„Fimm hundruð evru seðillinn kom til sögunnar 2002 eða tveimur árum eftir að Kanadamenn tóku sinn stærsta seðil úr umferð. Sá seðill er annað dæmi um stóran seðil sem mikið er notaður af glæpamönnum og í svartri atvinnustarfsemi. Hann gengur undir nafninu „Bin Laden“ og talið hefur verið að um fjórðungur allra útgefinna 500 evru seðla sé í notkun á Spáni, sem er langt umfram eðlilega þörf þess hagkerfis. Notkun 500 evru seðilsins var bönnuð í Bretlandi vorið 2010 vegna fullvissu yfirvalda um að hann væri mikið notaður við peningaþvætti og ólöglega peningaflutninga. 500 evru seðillinn var á þeim tíma rúmlega 8 sinnum verðmætari en stærsti breski seðillinn og augljóst val fyrir þá sem vildu fara leynt með fé sitt,“ segir Ari.