Nýi Glitnir býður viðskiptavinum sínum aðgang að Ráðgjafatorgi, símaþjónustu þar sem  ráðgjafar svara fyrirspurnum, milli kl: 17:00 – 21:00 miðvikudagskvöldið 12. nóvember.

Á Ráðgjafatorgi geta viðskiptavinir Glitnis fengið upplýsingar auk ráðgjafar um innlán og útlán einstaklinga, lífeyrismál, verðbréf & sjóði, eignastýringu, bílalán og fleira.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Glitni en þjónusta Ráðgjafatorgsins er viðskiptavinum að kostnaðarlausu.

Sími Ráðgjafatorgsins er 440-4000.

„Við höfum fundið fyrir auknum fjölda fyrirspurna frá viðskiptavinum um ýmis mál sem snúa að fjármálum heimila og einstaklinga,“ segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Nýja Glitnis í tilkynningunni.

„Með þessu viljum við koma til móts við aukna þörf á almennri fjármálaráðgjöf. Við höfum á undanförnum vikum og mánuðum lagt áherslu á að auka þennan þátt í okkar starfsemi og er Ráðgjafatorgið enn einn liður í því. Takist vel til munum við endurtaka leikinn eins og þurfa þykir.”