Nýjasti iPhone-síminn frá Apple er uppseldur í nokkrum verslunum í Bandaríkjunum. Opnað hefur verið fyrir pantanir á símanum vestanhafs. Síminn kemur í búðir á föstudag og gætu þeir sem langar í eitt stykki þurft að bíða í tæpan mánuð eftir að fá tækið í hendur. Ekkert annað tæki frá Apple hefur selst jafn vel.

Síminn, sem heitir iPhone- 4S, kostar aðeins tvö hundruð dali út úr búð vestra. Skilyrði er um að kaupendur geri samning við fjarskiptafyrirtæki þar í landi.

Ein milljón eintaka seldist af símanum í forsölu á einum degi og er það met. Þegar mest lét seldust sex hundruð þúsund eintök af símanum iPhone-4 á einum degi þegar hann kom á markað í fyrra. Nýi síminn er seldur í fleiri verslunum og fleiri löndum þegar hann kemur á markað en áður, samkvæmt upplýsingum Reuters-fréttastofunnar. Undir lok mánaðar geta tækjaóðir svo keypt hann í allt að 22 löndum.

Sérfræðingur segir í samtali við fréttastofu Reuters að áætlanir geri ráð fyrir því að Apple selji meira en tuttugu milljónir iPhone-síma til áramóta. Gangi það ekki eftir verði afkoman undir væntingum.