Nýi Kaupþing banki hefur lýst því yfir að þeir viðskiptavinir bankans sem undirrita skilmálabreytingar húsnæðislána, t.d. vegna greiðslujöfnunar og frystingar, fyrirgeri ekki réttindum sínum til að óska eftir öðrum úrræðum síðar, þ.e. úrræðum sem þegar eru til staðar eða úrræðum sem bjóðast í framtíðinni, enda uppfylli þeir skilyrði fyrir nýtingu úrræðanna.

Sama gildir um önnur réttindi sem neytendur kunna að njóta samkvæmt lögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Kaupþing, sem send er út í samráði við talsmann neytenda, en þar kemur fram að nokkuð hafi verið um að viðskiptavinir bankans vilji skrá inn á skilmálabreytingar húsnæðislána fyrirvara um betri rétt neytenda. Í tilkynningunni kemur fram að erfiðleikar hafa verið við þinglýsingu slíkra skjala vegna þeirrar óvissu sem fyrirvarinn veldur.