Frá og með morgundeginum, 21. nóvember 2009, mun Nýi Kaupþing banki skipta um nafn og heita Arion banki.

Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að nýtt nafn á bankanum yrði tilkynnt í dag en upplýsingafulltrúi bankans vildi ekkert tjá sig um það. Um miðjan dag í dag greindi Viðskiptablaðið jafnframt frá því að nafnið á bankanum yrði Arion.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að nýju nafni fylgir ný stefna og gildi. Með nýjum áherslum sé verið svara kröfum viðskiptavina og starfsmanna um breytingar í kjölfar endurskipulagningar bankans sem gerð var vegna hins mikla umróts sem hefur orðið í íslensku og alþjóðlegu efnahagsumhverfi.

Þá muni nýtt nafn koma í veg fyrir misskilning bæði í almennri umræðu og meðal innlendra og erlendra samstarfsaðila bankans.

Fram kemur að nýja nafnið er sótt í grískar fornsögur og vísar m.a. til þrautseigju, samvinnu og endurkomu.

Þá kemur einnig fram að kostnaði við breytingarnar verði haldið í lágmarki þar sem bankanum beri að „sýna aðhald og ráðdeild eins og önnur fyrirtæki og heimili í landinu,“ eins og það er orðað í tilkynningunni.

Ásýnd útibúa mun taka breytingum á næstu vikum og endurnýjun á markaðsefni verður unnin á meðan eldri birgðir klárast. Eðlileg endurnýjun er því látin koma í veg fyrir óþarfa tilkostnað.