Landsbankinn hf. og Landsbanki Íslands hf. (LBI), sem nú er í slitameðferð, hafa samið um að Landsbankinn hf. fyrirframgreiði fjórðung af höfuðstól svokallaðra A-Skuldabréfa sem gefin voru út árið 2010 vegna mismunar á virði yfirtekinna eigna og skulda frá LBI.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum í dag. Fyrirframgreiðslan er að jafnvirði rúmlega 73 milljarða króna í evrum, dollurum og pundum.

Fyrirgreiðslan mun að fullu ganga inn á fyrstu 5 af 20 ársfjórðungslegum afborgunargjalddögum skuldabréfanna, sem áttu að hefjast í janúar 2014. Næsta afborgun höfuðstóls verður því í apríl 2015 í stað janúar 2014 en lokagjalddagi er í október 2018.

Í tilkynningunni segir að sterk lausafjárstaða bankans í erlendri mynt geri honum kleift að greiða langtímaskuldirnar hraðar en ákvæði samninga kveði á um. Þá mun fyrirframgreiðslan hafa þau áhrif að samningsbundnar takmarkanir á heimild bankans til að veðsetja eignir vegna annarra skuldbindinga falla úr gildi. Það mun opna fyrir möguleika á fjölbreyttari fjármögnun og styrkja þannig samkeppnisstöðu Landsbankans, segir í tilkynningunni.