Eigendaskipti hafa orðið á einu stærsta verktakafyrirtæki landsins, Jarðvélum ehf. Félag í eigu þeirra feðga, Vilhjálms Þórs Vilhjálmssonar og Vilhjálms Kristins Eyjólssonar og Eyjólfs Kristins Vilhjálmssonar, sem kenndir eru við verktakafyrirtækið Toppinn, er nýr eigandi að Jarðvélum að því er kemur fram í Víkurfréttum.

Jarðvélar sf. var stofnað í maí árið 1984, af þeim Ólafi Kjartanssyni, Karli Hannessyni og mökum þeirra. Í fyrstu voru verkefnin aðallega fólgin í gerð grunna fyrir byggingarmeistara.

Árið 1994 tóku Jarðvélar sf. að sér sitt fyrsta útboðsverk fyrir opinbera aðila og hafa þau verk bæði stækkað og þeim fjölgað á þeim árum sem liðin eru.

Árið 2001 tók fyrirtækið að sér ásamt öðrum gerð mislægra gatnamóta við Víkurveg yfir Vesturlandsveg, 2002 tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Strandaheiði ásamt öðrum og 2003 gerð mislægra gatnamóta á Stekkjarbakka yfir Reykjanesbraut og eru þetta allt verksamningar upp á nokkur hundruð miljónir króna.

Um áramótin 2002/2003 breyttist rekstrarfyrirkomulag Jarðvéla þannig að Jarðvélar ehf. yfirtók allar eignir og skuldbindingar Jarðvéla sf. Velta fyrirtækisins árið 2003 var yfir einn miljarð króna. Helstu verkefni fyrirtækisins í dag eru frágangur í verkinu Stekkjarbakki yfir Reykjanesbraut, brúar- og gatnagerð yfir Úlfarsá, sprengingar á um 120.000 m3 af klöpp fyrir Eykt ehf. í Skúlatúnsreit ásamt ýmsum smærri verkum.