*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 24. apríl 2019 12:15

Nýir eigendur að Emmessís

Pálmi Jónsson kaupir nærri 90% í öðrum helsta ísframleiðanda landsins og verður hann framkvæmdastjóri.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ísgarðar ehf, félag í eigu Pálma Jónssonar, og Hnetutoppur ehf. undirrituðu í gær með sér samning um kaup hins fyrrnefnda á 89% hlut í Emmessís ehf. Félag í eigu Gyðu Dan Johansen mun áfram eiga 9% í fyrirtækinu.

Pálmi Jónsson mun taka við sem framkvæmdastjóri félagsins og auk hans verður ný stjórn skipuð þeim Gyðu Dan Johansen og Hildi Leifsdóttur, lögmanni. Emmessís náði umtalsverðum rekstrarbata á síðastliðnu ári og 2019 hefur farið vel á stað. Áætluð EBITDA félagsins fyrir 2018 nemur 64 milljónum króna.

Kaupverð hlutafjár er trúnaðarmál og hefur þegar verið greitt seljendum. Þá munu Ísgarðar ehf. styrkja félagið enn frekar með auknu hlutafé. Emmessís á sér langa rekstrarsögu en félagið var stofnað 12. maí 1960 en í dag starfa um 30 manns hjá fyrirtækinu.

„Allir landsmenn þekkja Emmessís og það er auðvitað mjög gaman að koma inn í fyrirtæki með svo gott orðspor og mörg þekkt vörumerki,“ sagði Pálmi Jónsson þegar kaupin voru gengin í gegn.

„Við hyggjumst byggja áfram á þeim trausta grunni og halda áfram að bjóða viðskiptavinum okkar upp á ferskan og bragðgóðan ís. Við vonum bara að veðurguðirnir samgleðjist okkur með sól og blíðu í sumar, svo við getum haldið áfram að toppa okkur.“